Við Sæbraut Hótelturn Radisson RED verður á horni Skúlagötu og Vitastígs í miðborg Reykjavíkur.
Við Sæbraut Hótelturn Radisson RED verður á horni Skúlagötu og Vitastígs í miðborg Reykjavíkur. — Morgunblaðið/sisi
Verið er að steypa 11. hæðina í nýjum hótelturni Radisson RED á Skúlagötu 26 í Reykjavík. Hótelið verður 17 hæðir með 211 herbergjum auk tveggja hæða kjallara sem verður að hluta nýttur sem bílastæðahús

Verið er að steypa 11. hæðina í nýjum hótelturni Radisson RED á Skúlagötu 26 í Reykjavík. Hótelið verður 17 hæðir með 211 herbergjum auk tveggja hæða kjallara sem verður að hluta nýttur sem bílastæðahús.

Turninn er með steyptum kjallara og steyptu lyftu- og stigahúsi. Utan um það verður raðað stáleiningum sem eru forsmíðaðar í Póllandi. Ljúka á uppsteypu í sumar.

Hver eining fullbúið hótelrými

Ekki náðist í fulltrúa verkefnisins. Hins vegar kom fram í Morgunblaðinu 12. mars að von væri á fyrstu forsmíðuðu einingunum til landsins um mánaðamótin apríl og maí. Síðan var áformað að hefja uppsetningu á einingunum en hver eining er í raun nær fullbúið hótelrými.

Tekið mið af veðri

Þannig þarf til dæmis aðeins að setja teppi, rúm og smærri hluti inn í tilbúin herbergin, sem eru með fullbúnu baðherbergi. Tekið verður mið af veðurfari við uppsetningu eininganna en hvassviðri getur sett strik í reikninginn.

Af aðstæðum að dæma er uppsetning eininganna ekki hafin.

Einar Þór Ingólfsson, verkfræðingur í Danmörku, er hönnuður burðarvirkisins en hann er meðeigandi KI verkfræðistofu í Kaupmannahöfn, eða KI Rådgivende Ingeniører. Stendur KI fyrir eftirnöfn stofnendanna, þeirra Jørgens Krabbenhøfts og Einars Þórs Ingólfssonar.

Kettle Collective, arkitektastofa skoska arkitektsins Tonys Kettles, hannar hótelið en fram kom í samtali við Kettle í Morgunblaðinu í ársbyrjun 2020 að skapa ætti nýtt kennileiti í borginni. Á 17. hæð hótelsins verður bar með útsýni yfir miðborgina og sundin og fyrir ofan hann verður útsýnisverönd á þakinu.