Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Páll Steingrímsson vill fá úr því skorið með dómi hvort blaðamenn hafi gengið inn á hans friðhelgi, því hann er ekki í neinum vafa um það sjálfur,“ segir Eva Hauksdóttir, lögmaður Páls Steingrímssonar. Páll hefur stefnt Ríkisútvarpinu fyrir að taka við síma í hans eigu, brjótast inn í hann, afrita hann og senda öðrum fjölmiðlum afrit til birtingar.
„Það getur ekki staðist lög að blaðamenn fari svona að og alls ekki hlutverk Ríkisútvarpsins að útvega öðrum miðlum gögn eða heimildir en birta ekki sjálft fréttir sem voru teknar upp af þessum síma. Það segir mér að þau hafi áttað sig á því að þetta var ekki í lagi. Þetta er brot á friðhelgi einkalífsins, eins og ef einhver fer í dagbókina þína í heimildarleysi þá er það miski í sálfu sér. Þetta er náttúrlega miklu meiri miski þar sem farið er í gegnum allt einkalíf mannsins.“
Hún segir það ekki almenna gagnaöflun að fara inn í stolinn síma heldur líkara því að taka við lykli að einkaheimili og róta til þess eins að finna þar eitthvað.
Ekki vitað hver var brotlegur
RÚV segir að engar sannanir séu fyrir því að síminn hafi verið afritaður af þeim.
„Í sakamálum eru gerðar gríðarlegar sönnunarkröfur og forsenda lögreglunnar fyrir því að hætta rannsókn var ekki sú að ekki væru til sannanir heldur var ekki hægt að sanna hver gerði hvað. Það kemur fram í rökstuðningi lögreglu að hún telur að hver sem er af þessum sakborningum gæti hafa gerst brotlegur við þau ákvæði hegningarlaga sem eru þarna undir. Vandamálið er að ekki er vitað hver gerði það. Ríkisútvarpið ber náttúrlega ábyrgð á sínum starfsmönnum, óháð því hver gerði hvað.“
Eva segir að stefnan snúist um þann gjörning að taka við símanum vitandi að maðurinn var á gjörgæslu, afrita hann og dreifa gögnunum til annarra miðla.
„Hvaða æfingar voru það eiginlega? Það er mjög sérstakt að fjölmiðill sé í gagnaöflun fyrir aðra miðla, hvað þá þegar það er ríkisútvarpið,“ segir Eva Hauksdóttir.