Inga Sæland Undrun vakti á Alþingi þegar Inga Sæland hélt því fram í ræðustól að hærri veiðigjöld myndu auka útsvarstekjur sveitarfélaga.
Inga Sæland Undrun vakti á Alþingi þegar Inga Sæland hélt því fram í ræðustól að hærri veiðigjöld myndu auka útsvarstekjur sveitarfélaga. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
„Það liggur ljóst fyrir að útsvar verður ekki hækkað með því að hækka veiðigjöld. Nema þá að útvegsmenn sættist á að borga okkur á grundvelli verðsins í Noregi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Ísland, í samtali við Morgunblaðið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það liggur ljóst fyrir að útsvar verður ekki hækkað með því að hækka veiðigjöld. Nema þá að útvegsmenn sættist á að borga okkur á grundvelli verðsins í Noregi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Ísland, í samtali við Morgunblaðið.

Hann var spurður álits á þeim ummælum Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, á Alþingi í gær að hærri veiðigjöld myndu skila sér í hærri útsvarstekjum til sveitarfélaga. Virtist Inga halda að ef svo færi að frumvarp um veiðigjöld næði fram að ganga á Alþingi yrði uppsjávarfiskur eins og makríll skattlagður á grundvelli meðalverðs í Noregi, sem hún virtist telja að yrði þá jafnframt uppgjörsverð til sjómanna. Það myndi síðan skila sér í hærri útsvarstekjum til sveitarfélaga.

Vöktu þessi ummæli Ingu, sem reyndar gegndi embætti forsætisráðherra þegar hún kunngjörði þetta álit sitt á Alþingi, mikla furðu þingmanna. Benti Bergþór Ólason alþingismaður Miðflokksins á í þingræðu að samkvæmt fyrrgreindu áliti Ingu Sæland yrðu áhrifin af veiðigjaldafrumvarpinu allt önnur en fram kæmi í frumvarpinu sjálfu.

„Við búum við það sjómenn í dag að við erum með kjarasamning í gildi sem kveður á um hvernig fiskur er verðlagður í viðskiptum á milli skyldra aðila. Í uppsjávarfiski selja útgerðir sjálfum sér fiskinn í öllum tilvikum. Þar er í gildi ákveðin regla sem er sú að 33% af afurðaverði þess fiskjar sem kemur til vinnslu kemur til skipta sjómanna,“ segir Valmundur.

„Því var lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar frumvarp um veiðigjöld kom fram að hún væri ekki að hlutast til um kjarasamninga sjómanna. En ef Inga Sæland ætlar að halda því fram að veiðigjöld í uppsjávarfiski muni hækka uppgjörsverð til sjómanna, þá erum við alveg tilbúnir í það. En þá þarf að breyta kjarasamningi, en það verður ekki gert nema með samkomulagi beggja aðila, þ.e. sjómanna og útvegsmanna, eða þá með því að segja samningnum upp, en hann er ekki uppsegjanlegur fyrr en eftir þrjú ár,“ segir hann. Rétt er að halda því til haga að Inga hefur í framhaldinu breytt nokkrum sinnum færslu sinni á samfélagsmiðlum um þetta mál og þegar síðast spurðist minntist hún þar ekki á útsvar lengur.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson