Signý Pála Pálsdóttir
signyp@mbl.is
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið að hún hafi svarað neyðarkalli Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), en tilkynnt var í gær að utanríkisráðherra hefði samþykkt að veita UNRWA viðbótarframlag upp á 150 milljónir króna vegna átakanna fyrir botni Miðjarðarhafs.
Þorgerður Katrín segir UNRWA hafa fengið á sig ýmsa gagnrýni á undanförnum misserum. Evrópusambandið og Bretland séu hins vegar ánægð með hvernig stofnunin hafi brugðist við þeirri gagnrýni og hvernig hún hafi framfylgt tillögum um umbætur.
Ísland hefur ramma fyrir neyðar- og mannúðaraðstoð og segir Þorgerður að stjórnvöld nýti þann ramma í þetta neyðarkall. Hún segir mikilvægt að sýna Palestínumönnum að þeir séu ekki gleymdir í þeim hörmungum sem dynja yfir. Þá sé starfsemi UNRWA mikilvæg þar sem hún veitir bæði menntun og heilbrigðisþjónustu á svæðinu, sem er ekki síst mikilvægt fyrir börn.
Þorgerður Katrín segir að allt þetta ferli hafi ýtt undir þá skoðun sína að alþjóðasamfélagið þurfi að taka skýrari skref til að ná fram vopnahléi á Gasasvæðinu og vinna að friði til lengri tíma. Hún segir langtímalausnina hljóta að felast í hinni svonefndu „tveggja ríkja lausn“, sem lengi hefur verið stefnt að á alþjóðavettvangi.
Þakkar Ísraelsstjórn
Utanríkisráðuneytið tilkynnti á miðvikudaginn að fulltrúar ráðuneytisins hefðu aðstoðað 16 einstaklinga á Gasasvæðinu við að komast þaðan og til Amman, höfuðborgar Jórdaníu. Í hópnum voru sjö börn en hópurinn er með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Þorgerður segir vinnuna í málinu hafa staðið í nokkrar vikur í samvinnu við aðrar þjóðir.
Hún þakkar stjórnvöldum í Ísrael samvinnu í málinu og segir að sú samvinna undirstriki mikilvægi þess að eiga í góðum samskiptum og vera í stjórnmálasambandi við Ísrael. Hún þakkar einnig Finnlandi og Jórdaníu fyrir aðstoðina við að koma fólkinu í meira öryggi.
Þorgerður Katrín segir erfitt að segja til um hvort íslensk stjórnvöld komi til með að ráðast í fleiri sambærileg verkefni þar sem óljóst sé hvort fleiri einstaklingar eru á Gasasvæðinu með dvalarleyfi hér á landi.