Alþingi Þrátt fyrir að veiðigjaldafrumvarpið sé fyrirferðarmikið á þingi hafa óvæntar yfirlýsingar og pólitískar árásir ekki síður tafið þinglok.
Alþingi Þrátt fyrir að veiðigjaldafrumvarpið sé fyrirferðarmikið á þingi hafa óvæntar yfirlýsingar og pólitískar árásir ekki síður tafið þinglok. — Morgunblaðið/Ólafur Árdal
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lítið þokast í samkomulagsátt um þinglok á Alþingi og raunar margt sem bendir til að frekar miði aftur á bak en áfram í þeim efnum. Stjórnarflokkarnir eru sagðir ekki vilja gefa tommu eftir, en stjórnarandstaðan ekki beinlínis samningsfús eftir hafa verið sökuð um málflutning í falsfréttastíl

Stjórnmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Lítið þokast í samkomulagsátt um þinglok á Alþingi og raunar margt sem bendir til að frekar miði aftur á bak en áfram í þeim efnum. Stjórnarflokkarnir eru sagðir ekki vilja gefa tommu eftir, en stjórnarandstaðan ekki beinlínis samningsfús eftir hafa verið sökuð um málflutning í falsfréttastíl. Óvænt útspil Ingu Sæland meðan hún gegndi embætti forsætisráðherra var ekki heldur til þess að liðka fyrir samningum.

Þrjár vikur eru nú liðnar síðan starfsáætlun þingsins var „tekin úr sambandi“, en ekki verður sagt að þingstörfin hafi gengið betur síðan. Umræða um bókun 35 við EES-sáttmálann var tímafrek áður en hún var tekin af dagskrá, en þá tók hækkun veiðigjalda við, sem ekki hefur gengið greiðlegar.

Þar hefur valdið sérstökum vandræðum hvað tölur í frumvarpinu voru á reiki, en leiðrétta þurfti þær og raunar ekki fyrr en nú í vikunni sem menn urðu nokkuð ásáttir um „réttar“ tölur varðandi veiðigjöldin, en útreikningurinn hafði bögglast mjög fyrir atvinnuvegaráðherra.

Fyrst og fremst voru það þó ummæli Kristrúnar Frostadóttur í Kastljósi Rúv. á mánudag sem hleyptu illu blóði í stjórnarandstæðinga, en þá sakaði hún þá um málflutning í „falsfréttastíl“ og var síðan flogin af landinu.

Kristrún lætur orðin standa

Stjórnarandstaðan krafðist þess að hún drægi orð sín til baka og þótti rétt að hún bæðist afsökunar á þeim.

Um það mun hafa verið gefinn einhver ádráttur og þess vegna var Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins með fyrstu spurningu í óundirbúnum fyrirspurnum í gærmorgun, þar sem hún vék að því að brigsl um falsfréttir sköpuðu ekki traust.

Kristrún dró hins vegar ekkert í land, hvað þá að hún bæðist afsökunar, heldur lét sér nægja að segja:

„Það var ekki mín ætlun að setja þingstörf í uppnám með mínum ummælum.“

Hins vegar veitti hún Hönnu Katrínu Friðriksson óvænta traustsyfirlýsingu vegna mikillar umræðu um gögn, útreikninga og áreiðanleika þeirra.

„Það liggur hins vegar alveg fyrir að ég mun standa með mínum ráðherra. Ég mun standa með hæstv. ráðherrum, atvinnuvegaráðuneytinu og þeim upplýsingum sem þaðan koma.“

Sú yfirlýsing kann raunar að gefa til kynna að öryggið um tölurnar og stöðu ráðherrans sé ekki óyggjandi, en í pólitík er gantast með að enginn ráðherra lifi af þrjár traustsyfirlýsingar forsætisráðherra.

En svo má horfa til þess að Kristrún talaði um einnig um ráðherra í fleirtölu, sem hlýtur að vekja spurningar um hvort hún taki undir breiðsíður Ingu Sæland í fjarveru sinni, en hún sagði á Facebook að veiðigjaldahækkunin myndi auka útsvarstekjur sveitarfélaga um hundruð milljóna og síðan í þinginu að laun sjómanna myndu hækka mikið. Hvorugt er í samræmi við frumvarpið og hið síðarnefnda fallið til þess að setja alla kjarasamninga í uppnám.

Grafið undan samningum

Ekkert af þessu eykur líkur á sáttum og samningum um þinglok. Það gerði ekki heldur grein Þórðar Snæs Júlíussonar, framkvæmdastjóra þingflokks Samfylkingar, sem hann birti í gærkvöld, og vandaði stjórnarandstöðunni ekki kveðjurnar. Útilokað er að greinin hafi ekki fengið blessun Kristrúnar.

Því er von að margir spyrji hvert sé „planið“ hjá Kristrúnu, engu sé líkara en að hún reyni að grafa undan samningum um þinglok.

Ein kenningin er sú að úr því sem komið er vilji hún hleypa þinginu í slíkan hnút, að hún geti stigið fram með tár á hvarmi og sagst nauðbeygð þurfa að beita 71. gr. þingskapa, en þá er umræðu lokið án tafar og gengið til atkvæða. Þá yrði það væntanlega gert um öll mál og þeim mokað í gegn án umfjöllunar Alþingis.

Því ákvæði hefur örsjaldan verið beitt. Það væri hins vegar án fordæma að það gera það við öll mál (þau eru ekki fá) og hin þinglega meðferð í raun sett til hliðar.

Höf.: Andrés Magnússon