Í þingsal Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir vinnu við endurskoðun jöfnunarframlags til lífeyrissjóða um það bil að ljúka.
Í þingsal Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra segir vinnu við endurskoðun jöfnunarframlags til lífeyrissjóða um það bil að ljúka. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ekki er hægt að láta afgreiðslu lífeyrisfrumvarpsins um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna, sem nú er til meðferðar á Alþingi, bíða til hausts vegna þeirra breytinga sem verða á örorkulífeyriskerfinu 1

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Ekki er hægt að láta afgreiðslu lífeyrisfrumvarpsins um víxlverkun örorkulífeyrisgreiðslna, sem nú er til meðferðar á Alþingi, bíða til hausts vegna þeirra breytinga sem verða á örorkulífeyriskerfinu 1. september. Þetta kom fram í svari Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við spurningu Bergþórs Ólasonar þingmanns Miðflokksins í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í gær.

„Verði ekki búið að leysa víxlverkunarmálið fyrir þann tíma mun, einfaldlega vegna gildandi reglna, verða tekið fullt tillit til greiðslna frá Tryggingastofnun við útreikning á örorkulífeyri hjá lífeyrissjóðum. Það myndi skerða verulega hag örorkulífeyrisþega,“ sagði ráðherrann.

Ákvörðun fer eftir því hvernig frumvarpinu reiðir af

Frumvarpið, sem kveður á um að lífeyrissjóðir geti framvegis ekki tekið tillit til greiðslna almannatrygginga þegar greiddur er örorkulífeyrir úr sjóðunum, hefur verið gagnrýnt harðlega af forsvarsmönnum lífeyrissjóða og aðilum vinnumarkaðarins. Hafa þeir haldið því fram að þetta muni draga úr styrk sjóðanna og einstakir sjóðir muni þá þurfa að mæta auknum greiðslum örorkulífeyris með því að skerða greiðslur ellilífeyris. Þá feli það í sér skerðingu á stjórnarskrárvörðum eignarréttindum sjóðfélaga.

Samhliða umræðu um frumvarpið eiga sér stað viðræður milli ráðuneytisins og fulltrúa lífeyrissjóða og aðila vinnumarkaðarins um fyrirkomulag framlags ríkisins til jöfnunar á mismikilli örorkubyrði lífeyrissjóða. Í fjármálaáætlun áranna 2026 til 2030 er gengið út frá því að jöfnunarframlagið falli niður frá og með næstu áramótum. Það er nú til endurskoðunar.

Fram kom í máli Daða Más að endurskoðun jöfnunarframlagsins væri óumflýjanleg ef víxlverkunarfrumvarpið yrði að lögum. Sagði hann að vinnunni væri um það bil að ljúka.

„Svo fer það aðeins eftir því hvernig málinu reiðir af í þinginu hvenær ákvörðun um endurskoðun jöfnunarframlagsins mun liggja fyrir,“ sagði ráðherrann og jafnframt að frágangi jöfnunarframlagsins væri hægt að ljúka á þessu ári og þá í tengslum við fjáraukalög í haust.

Samtalið gæti endað í nokkurri upplausn

Bergþór spurði ráðherrann hvort lagt hefði verið mat á hver þörfin væri fyrir framlagið til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða og benti á að víxlverkunin sem frumvarpið kvæði á um lenti sérstaklega þungt á sjóðum verkamanna, sem hefðu unnið erfiðisvinnu alla sína starfsævi og væru að jafnaði með þyngri örorkubyrði en aðrir sjóðir.

Jöfnunarframlagið sem fella á niður á næsta ári er gróflega áætlað að gæti orðið hálfur fimmti milljarður á yfirstandandi ári.

Bergþór sagði að miðað við þá vinnu sem væri í gangi núna og að greinilega ætti eftir að hnýta nokkra enda á yrði ekki stórslys af því að þingmálið færðist fram á haustið. Vinna þyrfti að þessu í samstarfi við lífeyrissjóðina.

„Eins og mér sýnist umsagnir liggja fyrir gæti það samtal að einhverju marki endað í nokkurri upplausn,“ sagði Bergþór.

Breytingar verða á jöfnunarframlagi ríkisins

70 milljarðar greiddir frá 2007

Ekki er gert ráð fyrir frekari framlögum ríkisins til að jafna örorkubyrði lífeyrissjóða frá og með næstu áramótum skv. fjármálaáætlun 2026-2030. Tekið er fram í minnisblaði fjármálaráðuneytisins til efnahags- og viðskiptanefndar að til standi að endurskoða fyrirkomulag framlagsins.

Ríkið hefur greitt lífeyrissjóðum jöfnunarframlag allt frá árinu 2007 og frá þeim tíma hafa þeir fengið samtals tæplega 70 milljarða kr. úr ríkissjóði til að jafna mismunandi örorkubyrði. Hefur árlegt framlag vaxið úr um einum milljarði í um sjö milljarða sem sjóðirnir fengu á síðasta ári.

Á yfirstandandi ári er áætlað að jöfnunarframlög til fimm sjóða sem eru með þyngstu örorkubyrðina verði um 4,5 milljarðar kr. Á minnisblaðinu er bent á að frá 2007 hafi eignir lífeyrissjóða aukist verulega og tryggingafræðileg staða þeirra styrkst.

Höf.: Ómar Friðriksson