Albert Jónsson
Albert Jónsson
Atlantshafsbandalagið stendur miklu sterkara eftir leiðtogafundinn í Haag að mati Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra og sérfræðings í öryggis- og varnarmálum. Á fundinum samþykktu leiðtogar bandalagsríkjanna að auka útgjöld til varnarmála upp …

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Atlantshafsbandalagið stendur miklu sterkara eftir leiðtogafundinn í Haag að mati Alberts Jónssonar, fyrrverandi sendiherra og sérfræðings í öryggis- og varnarmálum. Á fundinum samþykktu leiðtogar bandalagsríkjanna að auka útgjöld til varnarmála upp í 3,5% af vergri landsframleiðslu (VLF) og útgjöld til varnartengdra verkefna upp í 1,5% af VLF fyrir árið 2035, eða samtals 5% af VLF.

Albert segir að þessi niðurstaða hafi verið málamiðlun á milli Bandaríkjanna og hinna bandalagsríkjanna, sem Mark Rutte framkvæmdastjóri NATO eigi veg og vanda af, þar sem Trump Bandaríkjaforseti hefði viljað hækka markmiðið um útgjöld til varnarmála upp í 5%. „En Evrópuríkin ráða ekki við það, ríkisútgjöld eru há og skuldirnar miklar og skattahlutfallið er mjög hátt, þannig að það er bara mjög erfitt, svigrúmið er ekki mikið og menn búnir að venja sig á það í áratugi að hafa þetta svona,“ segir Albert. Málamiðlun Ruttes komi sér því mjög vel fyrir hin bandalagsríkin, því þau fá ríkt svigrúm til næstu tíu ára til þess að ná markmiðinu, ekki síst þar sem innan 1,5% markmiðsins rúmist ýmis verkefni sem voru þegar í framkvæmd og í bígerð.

Þegar kemur að Íslandi segir Albert ljóst að við sem herlaus þjóð munum ekki þurfa að verja 3,5% af VLF til varnarmála, en stjórnvöld hafi verið mjög skýr með það að hér verði farið í innviðauppbyggingu upp á 1,5%. „Þetta eru auðvitað miklir peningar, ég reikna um sjötíu milljarðar á ári eftir tíu ár. Allt þetta eru miklir peningar, en hins vegar er sumt af því sem þarf að gera nú þegar í bígerð,“ segir Albert og nefnir þar Landhelgisgæsluna, landamæraeftirlit, netöryggi og jafnvel hafnargerð og vegagerð sem dæmi um hluti sem fallið geti undir þetta markmið. Albert bætir við að hann sé ánægður með þau skilaboð sem oddvitar ríkisstjórnarinnar hafi sent frá sér, þar sem þeir segja að málið snúist um hvernig þessum fjármunum verði varið skynsamlega í þá hluti sem við kunnum best, það er hin „borgaralegu“ öryggismál.

Albert segir að það megi vel hrósa Trump Bandaríkjaforseta fyrir að hafa gerbreytt stöðunni hvað varðar útgjöld Kanada og Evrópu til varnarmála. „Við eigum nú eftir að sjá framkvæmdina, en stefnan sem hefur verið mótuð er feikileg breyting og mikið til að sjálfsögðu honum að þakka,“ segir Albert. Hann bendir á að stríðið í Úkraínu hafi hafist 2014, en samt hafi leiðtogar Evrópu verið lengi að taka við sér til að bregðast við ógninni frá Rússum.

Bandalagið standi hins vegar núna styrkari fótum. „Og skuldbinding Bandaríkjanna í garð bandalagsins er miklu skýrari en hún var á fyrra kjörtímabili Trumps. Án Bandaríkjanna er þetta bandalag í miklu veikari stöðu, það segir sig sjálft. NATO hvílir og hefur alla sína tíð hvílt á þátttöku Bandaríkjanna. Þannig að það að taka ákvörðun um útgjöldin hlýtur að styrkja bandalagið, m.a. vegna þess að það styrkir þátttöku Bandaríkjanna í bandalaginu. NATO stendur því miklu sterkara eftir þennan fund,“ segir Albert að lokum.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson