Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Það ber brýna nauðsyn til að kynna hluthafastefnu sem miðar að því að bæta hag hluthafa, sem að lokum eru launafólk sem á lífeyri sinn við borð.

Vilhjálmur Bjarnason

Það ber sjaldan við að stjórnir hlutafélaga boði eigendur til fundar. Það vill gleymast að æðsta vald í hlutafélagi er hluthafafundurinn. Oftast eru einu hluthafafundir í hlutafélögum árlegir aðalfundir félaganna.

Á aðalfundum kynnir stjórn félagsins starfsemi liðins árs og afkomu, kosin er stjórn fyrir næsta ár og kynnt starfskjarastefna.

Starfskjarastefna er nýtt fyrirbrigði á hluthafafundum. Sérhvert félag er bundið af kjarasamningum og hlutafélagalög heimila ekki að stjórn félags eða jafnvel hluthafafundur úthluti ótilhlýðilegum hagsmunum að geðþótta stjórnar og stjórnenda. Hin nýju fyrirbrigði, sem eiga að felast í „starfskjarastefnu“, setja hagsmuni hluthafa skör neðar en hagsmuni starfsmanna, sem hafa þegar fengið sín laun og hlunnindi afgreidd.

Sá er þetta ritar kannast ekki við að haldnir hafi verið hluthafafundir um hluthafastefnu í nokkru hlutafélagi, umfram það sem kemur fram í samþykktum félaga og skyldubundnum aðalfundum.

Það er ekki til reiknilíkan sem sýnir fram á kauprétti starfsmanna í hlutafélögum og kaupaukakerfi sem sýnir „rétt kaupverð“ á hlutabréfum eða hagsauka fyrir hluthafa af slíkum gerningum.

Miklu heldur kann kaupréttur og kaupauki að auka á áhættuhegðun hlutafélaga.

Upprifjun

Áður en lengra er haldið er rétt að rifja upp ákveðna forsögu. Það er ekki víst að stjórn Íslandsbanka hf. sé kunnug forsagan.

Íslandsbanki hf. er byggður á grunni banka sem hét ýmsum nöfnum. Ef ritara skjátlast ekki, þá hefur Íslandsbanki hf. heitið níu nöfnum á ferli sínum. Þar af fjórum sinnum Íslandsbanki hf. Sennilega hófst glæpvæðing bankakerfisins í aðdraganda bankahruns í einum þessara banka.

Glitnir hf. fór í þrot í október 2008 vegna snilli stjórnar bankans og starfsmanna hans. Þá véluðu stjórn og starfsfólk bankans um ótilhlýðilega hagsmuni á kostnað hluthafa bankans og við borð lágu hagsmunir þjóðarinnar.

Ríkissjóður stofnaði nýjan banka til að tryggja hagsmuni innistæðueigenda og til að starfsemi hins gamla banka gæti haldið áfram í nýjum og heilbirgðum rekstri.

Kröfuhafar í þrotabúi Glitnis hf. breyttu hluta af kröfum sínum í hlutafé í hinum nýja banka, sem varð Íslandsbanki hf., sá er nú starfar.

Við nauðasamninga hinna föllnu banka var samið um að íslenska ríkið fengi í sinn hlut eignir kröfuhafa í þrotabúi Glitnis hf. í Íslandsbanka hf. fyrir 22% af bókfærðu verðmæti eignarhlutans. Þannig eignaðist ríkissjóður allan Íslandsbanka hf.

Það var aldrei ætlan stjórnvalda að eiga þennan banka, miklu fremur var og er það vilji stjórnvalda að eiga ráðandi hlut í Landsbanka Íslands hf.

Nú hefur hlutur íslenska ríkisins í Íslandsbanka hf. verið seldur í þremur hlutafjárútboðum. Ritari ætlar ekki að fjalla um álitsgerðir Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis í kjölfar annars hluta söluferlisins. Þær álitsgerðir verða ekki túlkaðar á grundvelli settra réttarheimilda ellegar hefðbundinnar lagatúlkunar. Það er efni í aðra grein.

Með eignarhaldi sínu á íslenskum fjármálafyrirtækjum setti íslenska ríkið sér eigendastefnu. Það var ekki gert ráð fyrir kaupaukakerfum eða kaupréttarkerfum fyrir starfsmenn.

Brýna nauðsyn ber til

Nú ber svo við að stjórn Íslandsbanka hf. telur að brýna nauðsyn beri til að efla hagsmuni starfsmanna Íslandsbanka hf. á kostnað hluthafa bankans.

Hluthafar bankans eru tugir þúsunda einstaklinga með beinum hætti, auk óbeinnar eignar með aðild að skyldutryggingu í lífeyrissjóðum.

Kvika banki hf. fór í óskiljanlega ferð við úthlutun kaupréttarsamninga til sinna starfsmanna, sem í raun voru örlætisgerningar á kostnað eigenda bankans, þar á meðal launafólks. Og sama hefur gerst í Arion banka hf.

Það hefur ekki birst vitræn útskýring á þeirri brýnu nauðsyn sem ber til að halda hluthafafund í Íslandsbanka hf. um háslátt til þess að lepja örlætisgerninga núlifandi gjaldþrota íslenskra banka, á kostnað hluthafa, það er ósköp venjulegra Íslendinga sem vilja veita sparifé sínu í íslenskt atvinnulíf.

Er tillaga stjórnar Íslandsbanka hf. að nýrri starfskjarastefnu fyrir bankann borin fram af brýnni nauðsyn?

Vantaði eitthvað í útboðslýsingu?

Kom það einhvers staðar fram í útboðslýsingu vegna sölu hlutabréfa ríkisins í Íslandsbanka hf. í maí að veikleiki bankans væri kjör starfsmanna Íslandsbanka hf.?

Hluthafar voru að kaupa hlutabréf í Íslandsbanka hf. í þeirri óvissu sem fylgir hlutabréfakaupum. Það eru í gildi kjarasamningar og ráðningarsamningar við starfsfólk með fullkominni vissu. Að auki fylgir forgangsréttur launa í þrotabú og að baki því er trygging Ábyrgðasjóðs launa.

Sú stjórn, sem hefur verið kosin í Íslandsbanka hf., hefur ekki haft fyrir því að kynna hluthöfum á hvern veg hugsunin er að endurgreiða hluthöfum útlát sín með áhættu í hlutabréfakaupum í bankanum.

Samviska stjórnarmanna í Íslandsbanka hf. er valtur dómari um rétt og rangt. Miklu fremur er samviskan þeirra sem misvel vaninn hundur. Það er þá þannig að hundar skilja ekki samhengi glæps og refsingar, nema refsing komi strax í kjölfarið.

Það ber brýna nauðsyn til að kynna hluthafastefnu sem miðar að því að bæta hag hluthafa, sem að lokum eru launafólk sem á lífeyri sinn við borð.

Ábyrgð lífeyrissjóða

Ábyrgð lífeyrissjóða er mikil. Launafólk ber þá skyldu að kaupa sér lífeyri hjá lífeyrissjóðum með starfsleyfi. Lífeyrissjóðir setja sér fjárfestingarstefnu, sem byggist í grunninn á fjárfestingarheimildum samkvæmt í lögum um lífeyrissjóði.

Stjórnir og starfsmenn hafa ekki heimildir til örlætis og geðþótta á kostnað lífeyrisþega.

Glæpir samkvæmt lögum

„Ef mann langar til að drýgja glæp, þá á maður að gera það samkvæmt lögum, því allir höfuðglæpir eru lögum samkvæmir.“

Er það ekki glæpur að úthluta áhættulausum kaupréttarsamningum til starfsmanna á kostnað hluthafa? Er ekki rétt að stjórnendur lífeyrissjóða skoði hlutafélagalög? Þau eru stjórnarskrá hlutafélaga.

Víst er að í stjórn Íslandsbanka hf. situr aðili sem sýnt hefur af sér hugkvæmni til að niðurlægja hluthafa í undanfara núverandi Íslandsbanka hf., en skerðing á fullveldi hluthafa í hlutafélagi er glæpur. Að ekki sé ráðstöfun ótilhlýðilegra hagsmuna.

Höfundur var alþingismaður.

Höf.: Vilhjálmur Bjarnason