Strandveiðibátar streymdu frá Tálknafirði og út á miðin aðfaranótt fimmtudags. Um 30 bátar eru á strandveiði frá Tálknafirði og mikil drift er á höfninni þegar strandveiðarnar standa yfir, segir Lilja Magnúsdóttir, starfsmaður hjá Tálknafjarðarhöfn. Veiðarnar í sumar hafa gengið þokkalega, flestir bátar ná að veiða skammtinn á fjórum til sex tímum. Stór og fallegur fiskur hefur verið að veiðast og er fiskurinn ýmist verkaður á Patreksfirði eða fluttur annað á markað. Strandveiðimenn fara út á nóttunni og leggja sig á daginn og menn róa bara á meðan menn mega róa, segir Lilja. Hún segir strandveiðifrumvarpið mönnum hugleikið um þessar mundir og óvissuna í kringum þessa atvinnustarfsemi óþægilega.