Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Skógræktarfélag Reykjavíkur býður til afmælishátíðar á laugardaginn kemur, milli 12 og 17, í Vífilsstaðahlíð.
Friðlandið í Heiðmörk var formlega vígt 25. júní 1950 og er því 75 ára á þessu ári.
Af því tilefni er boðið til þessarar afmælishátíðar. Boðið verður upp á leiki, keppnir, andlitsmálun, varðeld, kaffihús og fræðslugöngu.
Klukkan 12.30 hefjast hátíðarávörp og eru ræðumenn Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri Reykjavíkur og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.
Klukkan 14.30 munu starfsmenn Skógræktarfélagsins stýra kappleikjum.
Til stendur að loka fyrir bíla
Heiðmörkin hefur verið í fréttum að undanförnu vegna þeirrar stefnu Veitna að loka bílaumferð almennings um Heiðmörk og gera ráð fyrir bílastæðum í jaðri útivistarsvæðisins. Sólrún Kristjánsdóttir framkvæmdastýra Veitna sagði í samtali við Morgunblaðið að stefnt væri að því að takmarka bílaumferð um viðkvæmustu svæðin til þess að tryggja hreint neysluvatn. Helsta ógnin við hreina vatnið væri bílar á grannsvæði.
Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir félagið hafa miklar áhyggjur ef takmörkun bílaumferðar um Heiðmörkina verði að veruleika. Það muni draga úr aðsókn gesta ef fólk þurfi að ganga einhverja kílómetra að þeim svæðum þar sem viðburðir fara fram.