Radoslaw Sikorski utanríkisráðherra Póllands segir að nýtt vígbúnaðarkapphlaup gæti leitt til falls ríkisstjórnar Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta líkt og Sovétríkin hrundu á sínum tíma.
„Pútín ætti að skilja að hann er á sömu vegferð og (Leoníd) Brésjnef. Pútín sagði sjálfur eitt sinn að Sovétríkin hefðu hrunið vegna þess að þau vörðu of miklu fé í vígbúnað og nú gerir hann það sama,“ sagði Sikorski við AFP.
„Hann heyr afar kostnaðarsamt stríð og hefur einnig ögrað Vesturveldunum, sem hafa aukið sinn varnarviðbúnað. Það þýðir að hann þarf að kreista meiri fjármuni til varnarmála úr hagkerfi sem er á stærð við hagkerfi Texas, vonandi með sömu niðurstöðu og í Sovétríkjunum en hraðar.“