Rjúpnakarri Alls sáust 2.325 karrar í rjúpnatalningum Náttúrufræðistofnunar sem fram fóru á 22 svæðum í vor.
Rjúpnakarri Alls sáust 2.325 karrar í rjúpnatalningum Náttúrufræðistofnunar sem fram fóru á 22 svæðum í vor. — Ljósmynd/Pétur Alan
Ástand rjúpnastofnsins er nokkuð breytilegt eftir landshlutum. Á Vesturlandi og Norðausturlandi hefur rjúpum fjölgað talsvert frá því í fyrra og á sumum svæðum, svo sem á Mýrum og í Bakkafirði, var fjöldi rjúpna sá mesti sem sést hefur frá því að rjúpnatalningar hófust

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Ástand rjúpnastofnsins er nokkuð breytilegt eftir landshlutum. Á Vesturlandi og Norðausturlandi hefur rjúpum fjölgað talsvert frá því í fyrra og á sumum svæðum, svo sem á Mýrum og í Bakkafirði, var fjöldi rjúpna sá mesti sem sést hefur frá því að rjúpnatalningar hófust. Þetta kemur fram á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar, þar sem gerð er grein fyrir niðurstöðum rjúpnatalninga sem fram fóru í vor.

Á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra var fjöldi rjúpna svipaður og undanfarin ár, en á Austurlandi hefur rjúpum fækkað frá því í fyrra. Á Suðurlandi var fjölgun og er stofninn þar við meðaltal síðustu ára.

Hjá Náttúrufræðistofnun kemur m.a. fram að miðað við stofnvísitölur úr talningum síðustu 20 ára sé rjúpnastofninn undir meðaltali á Austurlandi en í kringum meðaltalið á Norðurlandi vestra og á Suðurlandi. Rjúpnastofninn er hins vegar yfir meðaltali á Vesturlandi, á Vestfjörðum og á Norðausturlandi. Líklegt er talið að þéttleiki rjúpna á vissum svæðum tengist fækkun fálka þar.

Rjúpur voru taldar á 22 svæðum í öllum landshlutum og sáust alls 2.325 karrar. Voru skilyrði til talninga góð að mati vísindamanna stofnunarinnar, enda varð snemma snjólaust í flestum landshlutum. Talningarnar fóru fram í samvinnu við Náttúrustofur Vestfjarða, Norðurlands vestra, Norðausturlands og Austfjarða, Vatnajökulsþjóðgarð, Skotvís og áhugamenn um rjúpur.

Í heildina sáust 28% fleiri rjúpur í vor en í fyrra, en langstærstan hluta þeirrar fjölgunar má rekja til mikils fjölda rjúpna á Vesturlandi og Norðausturlandi.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson