Hermann Nökkvi Gunnarsson
hng@mbl.is
Staða sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi kom ekki til umræðu í samtölum Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra við bandaríska kollega á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Haag í Hollandi. Hún segist þó vona að skipun nýs sendiherra dragist ekki á langinn.
Þetta kemur fram í samtali utanríkisráðherra við Morgunblaðið.
Carrin F. Patman, síðasti sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hélt af landi brott 17. janúar síðastliðinn. Erin Sawyer gegnir nú starfi starfandi sendiherra (Chargé d'affaires) og verður það áfram þar til nýr sendiherra tekur við.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur enn ekki skipað sendiherra, sem Þorgerður segir ekki endilega óeðlilegt í ljósi sögunnar.
Spurð hvort þetta hafi komið til umræðu samhliða leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Haag í Hollandi segir Þorgerður að svo hafi ekki verið.
„Reynslan frá því síðast, mig minnir að það hafi verið næstum því tvö ár sem það tók hann að skipa sendiherra. En ég bind nú vonir við að það verði nú sendiherra skipaður fyrr en síðar,“ segir Þorgerður.
Síðast þegar Trump var forseti tilnefndi hann Jeffrey Ross Gunter í sendiherrastöðuna einu og hálfu ári eftir að hann tók við embætti forseta. Öldungadeildin samþykkti tilnefninguna svo ekki fyrr en í maí 2019, eða rúmum tveimur árum eftir að Trump byrjaði sem forseti.
Joe Biden Bandaríkjaforseti tilnefndi Patman í febrúar 2022, ári eftir að hann tók við embætti forseta, og hóf hún störf í ágúst sama ár. Hefur þetta því ekki verið helsta forgangsmál forseta Bandaríkjanna.
Þorgerður segir að samskiptin við fulltrúa Bandaríkjamanna hér á landi hafi verið mjög góð.
„Við höfum átt í mjög góðum samskiptum,“ segir Þorgerður og bætir við að þeir hafi „staðið sig með sóma“.
Trump áhrifaríkur karakter
Þorgerður segist ánægð með að Bandaríkjamenn hafi tekið afgerandi afstöðu á leiðtogafundinum og beitt sér fyrir styrkingu varna og áframhaldandi stuðningi við Úkraínu.
Þorgerður sótti fundinn síðustu daga ásamt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og meðan á fundinum stóð tók Þorgerður í höndina á Donald Trump. Í samtali við Vísi lýsti hún honum sem „heillandi“. Ummæli Þorgerðar hafa hlotið gagnrýni frá Svandísi Svavarsdóttur, formanni Vinstri-grænna, sem er andvíg veru Íslands í NATO. Svandís brást harkalega við og sagði orð utanríkisráðherrans „niðurlægjandi“.
Þorgerður segist þó ekki ætla að leggja mikla áherslu á viðbrögð annarra. Trump sé sterkur og áhrifaríkur einstaklingur.
„Ég ætla ekki að dvelja við það hvaða skoðun aðrir hafa á mínum orðum. Meginmálið er að af þessari stuttu viðkynningu er alveg ljóst að þetta er sterkur og áhrifaríkur karakter. En það sem mestu skiptir er að hann beitti sér þannig á fundinum, að mínu mati, að bandalagið er sterkara núna en það var í fyrradag,“ segir Þorgerður.