Sá stærsti Bakkaár-laxinn, stærsti stangveiddi lax sem veiðst hefur á Íslandi. Á myndinni eru Ragnhildur Helga Jónsdóttir, Jóhannes Jónu Guðbrandsson, Anna Heiða Baldursdóttir og Sigurður Már Einarsson.
Sá stærsti Bakkaár-laxinn, stærsti stangveiddi lax sem veiðst hefur á Íslandi. Á myndinni eru Ragnhildur Helga Jónsdóttir, Jóhannes Jónu Guðbrandsson, Anna Heiða Baldursdóttir og Sigurður Már Einarsson. — Morgunblaðið/Birna Guðrún Konráðsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það var fullt út úr dyrum við opnunarhátíð sýningarinnar Saga laxveiða í Borgarfirði í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri 20. júní sl. Segja má að þessi sýning byggist að hluta á grunni Veiðisafnsins sem Þorkell Fjeldsted heitinn og fólkið hans…

Baksvið

Birna G. Konráðsdóttir

Hvanneyri

Það var fullt út úr dyrum við opnunarhátíð sýningarinnar Saga laxveiða í Borgarfirði í Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri 20. júní sl. Segja má að þessi sýning byggist að hluta á grunni Veiðisafnsins sem Þorkell Fjeldsted heitinn og fólkið hans kom á fót í Ferjukoti fyrir mörgum árum, en þar á bæ höfðu safnast saman ýmsir munir tengdir stang- og netaveiði í Borgarfirði.

Ragnhildur Helga Jónsdóttir safnstjóri sagði í orðum sínum að fyrir allmörgum árum hefðu þeir Þorkell Fjeldsted og Bjarni Guðmundsson þáverandi safnstjóri rætt um það að koma svona sýningu á laggirnar innan Landbúnaðarsafnsins. Hugmyndin hefði gerjast áfram en fyrir um fjórum árum var farið af alvöru að vinna í málinu. Ráðinn var sérfræðingur til safnsins til að vinna að rannsóknum á efninu, Anna Heiða Baldursdóttir sagnfræðingur, sem síðar varð einnig sýningarstjóri þessarar sýningar, og seinna kom síðan Sara Hjördís Blöndal í sýningahönnunina. Þær stöllur unnu síðan saman að uppsetningu sýningar sem almenningur getur nú notið. Ragnhildur nefndi einnig að fjölmargir aðrir hefðu komið að undirbúningi sýningarinnar með láni á gripum, gjöfum, upplýsingagjöf og aðstoðað á margan hátt og væri þeim sérstaklega þakkað. Að lokum nefndi hún að nú væru þessari miklu auðlind héraðsins gerð góð skil á sýningu sem yrði jafnframt til þess að efla Landbúnaðarsafn Íslands og þar sem andar Þorkels og Halldórs Vilhjálmssonar skólastjóra svifu nú yfir sýningarsvæðinu þá gæti þetta bara ekki klikkað.

Anna Heiða Baldursdóttir sýningarstjóri sagðist hafa lofað að vera stuttorð og stóð við það. Hún greindi frá vinnu við að koma sýningunni á laggirnar. Landbúnaðarsafnið fékk öndvegisstyrk frá Safnasjóði til verkefnisins sem varð til þess að hægt var að hefja rannsóknarvinnu á þessari gríðarlega merku sögu og þróun laxveiða á þessu svæði. Fleiri styrkir hefðu fengist síðar í sértækari verkefni er á leið, eins og frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands, ýmsum veiðifélögum í héraðinu og Fiskræktarsjóði. Sjálf rannsóknin miðaði að því að skoða ýmislegt er viðkom laxveiðum eins og þróun veiðihúsa, hlutverk veiðifélaga og veiðisögur. Jafnframt voru hlutverk fólksins sem starfaði við laxveiðarnar könnuð, eins og hestasveina og ráðskvenna. Samhliða þessu var ráðist í að safna gripum og ljósmyndum, ásamt munnlegum heimildum frá fólki sem tengst hefur laxveiðum í héraðinu á einn eða annan hátt. Og afraksturinn er safnasýningin þar sem miðlað er í gegnum stafrænt efni, teikningar, texta, gripi, munnlega frásögn og ljósmyndir.

Liður í áframhaldandi vegferð

Sýningin sjálf er ekki endalok þessa verkefnis, að sögn Önnu Heiðu, heldur stendur til að gefa út greinasafn þar sem fjölmargir þættir laxveiða í Borgarfirði verða umfjöllunarefni nokkurra höfunda. Þar á meðal eru viðtöl sem tekin voru síðustu ár við fólk sem kom að starfi veiðifélaga, rekstri laxveiðiánna og uppbyggingu þeirra. Dagurinn væri því liður í áframhaldandi vegferð í söfnun og rannsóknum á laxveiðum í Borgarfirði. Anna Heiða sagði jafnframt að söfnunarstefnu safnsins hefði verið breytt til að takast á við varðveislu, rannsóknir og miðlun á þessum merkilega hluta sögu landnýtingar og landbúnaðar á Íslandi. Með þeirri breytingu væri vonast til að safnið yrði gildandi í umræðu samtímans um náttúruvernd, varðveislu laxastofnsins og nýtingu þessara mikilvægu hlunninda sem laxveiðar eru, ekki síst fyrir borgfirska bændur og landeigendur. Hún gat þess einnig að laxveiðar væru rúmlega 50% af tekjum landbúnaðar í Borgarfirði og er það langstærsta hlutfall á landinu. Því er augljóst að veiðarnar og allt sem þeim viðkemur hefur og mun hafa gríðarleg áhrif á þróun svæðisins.

Sterkt bakland

Anna Heiða greindi frá því að engin sýning hefði orðið til án hins sterka baklands sem hefur komið að uppsetningunni og það væri ekki sjálfgefið að eiga slíkt. Þar taldi hún upp Ferguson-félaga, Arnar rafvirkja, Baldur prentara, Kristján smið og hans menn sem hafa unnið fram á kvöld við að gera allt sýningarhæft. Hún taldi að þeir hefðu varla haft tíma til að fara í sturtu. Auk þess þakkaði hún Hafró á Hvanneyri, Safnahúsi Borgarfjarðar, Bjarna Guðmundssyni og Þórarni Blöndal fyrir þau listaverk sem þeir lögðu fram til sýningarinnar. Sagði hún að listinn væri langur svo að lokum sagði hún einfaldlega: „Takk kærlega fyrir ykkar aðstoð og framlag, stórt og smátt. Og að lokum vil ég líka kærlega þakka Ragnhildi Helgu safnstjóra fyrir að treysta mér fyrir að leiða sögu laxveiða í Borgarfirði síðustu ár!“

Á sviðinu birtust svo allt í einu starfsmenn Hafrannsóknastofnunar en fyrir hópnum fór Guðni Guðbergsson sviðsstjóri við ferskvatns- og eldissvið. Með honum í för voru Sigurður Már Einarsson, sem starfað hefur lengst allra hjá útibúinu á Vesturlandi, og Jóhannes Jónu Guðbrandsson, sérfræðingur við sama útibú. Þeir komu færandi hendi því meðferðis höfðu þeir stærsta stangveidda lax sem veiðst hefur á Íslandi, svokallaðan Bakkaárlax, sem Marinó Jónsson veiddi í Bakkafirði 24. júní 1992. Laxinn er uppstoppaður, og var er hann veiddist 130 cm langur 11 ára hængur og vó 21,5 kíló. Það sem einnig er merkilegt er að þetta ferlíki var veitt á silungsstöng en stöngin og veiðihjólið var frá Mitchell. Þeim félögum fannst tilhlýðilegt að þessi lax fengi geymslupláss á hinu nýja safni. Að auki komu þeir með veiðistangir og veiðitöskur Þórs Guðjónssonar sem var veiðimálastjóri í ríflega 40 ár.

Sögunum má ekki gleyma

Síðasti ræðumaður dagsins var Sveinbjörn Eyjólfsson, formaður Sambands borgfirskra veiðifélaga. Sagðist hann spenntur yfir því að sjá hvað safnið bæri í sér. Tilfinningin væri næstum eins og að standa við uppáhaldshylinn og vita að sá stóri væri að fara að taka fluguna. Það væri ekki bara augnablikstilfinning heldur eitthvað sem myndi vara að eilífu. Hún lifnaði við í hvert sinn sem sagan væri sögð. Því væri svo mikilvægt að segja og hlusta á sögur. Þar væru veiðisögur ekki sístar og ætti að halda til haga, geyma á góðum stað, eins og þessum. Sveinbjörn ræddi einnig um að Samband borgfirskra veiðifélaga hefði á ýmsan hátt reynt að styðja við þetta verkefni og Landssamband veiðifélaga (LV) einnig. Það félag studdi við safnið í Ferjukoti, sem eins og komið hefur fram er hluti af því sem hér er geymt. Að mati Sveinbjörns voru Þorkell og fólkið hans frumkvöðlar sem ruddu veginn og starf þeirra lifir. Og af því að það er gaman að heyra góðar sögur, þá kom hann með eina. Það var þegar LV hélt afmælisfund í Borgarnesi fyrir allmörgum árum, að sambandið veitti Þorkeli veglegan styrk til að vinna að safninu. Hann viknaði nærri því er hann tók við styrknum og sagði að nú hefði það gerst, sem sjaldan kæmi fyrir, en hann væri alveg orðlaus. Í framhaldinu hélt Þorkell síðan langa þakkarræðu. Sveinbjörn sagðist hafa setið við hlið Þorsteins Þorsteinssonar á Skálpastöðum er þeir hlustuðu á þakkirnar.

Í ræðu sinni kom Sveinbjörn einnig inn á að saga veiða væri jafnlöng sögu Íslandsbyggðar. Frá þeim væri greint í Íslendingasögunum og jafnframt frá deilum um veiði eða veiðihlut. Í Egilssögu væri frásögn af því hvernig þeir bræður Heggur og Kvígur börðust við Varmalækjarmenn á Laxafit í Grímsá. Þar féllu þeir báðir en nöfn þeirra hafa lifað vegna jarðanna sem þeir bjuggu á. Hins vegar er það ekki fyrr en á 19. öld sem menn fór að leigja út veiðiheimildir. Fáeinir einstaklingar, ekki síst Borgfirðingar, ruddu brautina og eiga miklar þakkir skildar. Til landsins komu veiðimenn með vorskipinu og fóru ekki aftur fyrr en með haustskipinu. Þeir leigðu ána allt sumarið, mörg ár í röð. Af þessu fólki eru til margar sögur sem vonandi varðveitast á þessu safni.

Veiðihlunnindi milljarða virði

Að mati Sveinbjörns og margra annarra eru laxveiðihlunnindi milljarða virði. Kynslóðirnar hafa unnið að þessari verðmætasköpun. Lagt vegi, byggt veiðihús, útbúið veiðistaði, aukið við uppeldissvæði, sett fjármagn í kynningu og markaðssetningu. Á þessu sviði hefði fátt orðið til af sjálfu sér. Og þetta safn og þessi sýning mun geyma þessa sögu sem er merkileg og ber að virða. Sveinbjörn óskaði síðan öllum til hamingju með sýninguna sem þar með var formlega opnuð.

Það er vel þess virði að leggja leið sína í Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri til að skoða þessa merku sýningu. Virkilega er gaman að sjá þróunina sem orðið hefur í aðstöðu fyrir veiðimenn, sem dæmi frá tjöldum upp í vel búin veiðihús nútímans. Jafnframt hafa orðið breytingar á útleigu, ekki síst með tilkomu veiðifélaganna er bændur hættu að leigja út hver fyrir sitt land. Einnig hefur aðgengi að ánum gjörbreyst með vegum að veiðistöðum og öðru slíku. Og svo er það sem allt þetta snýst um: laxinn sjálfur. Lífshringur hans er skýrður á myndrænan og einfaldan hátt. Um hann hefur lengi verið rætt og ritað og vonandi heldur hann áfram að ganga í íslenskar laxveiðiár um ókomna tíð.

Höf.: Birna G. Konráðsdóttir