Egill Þórir Einarsson
Ragnheiður Jónsdóttir hefur sýnt mér þann heiður að svara grein minni um átökin á Gasa frá 30. maí sl. þar sem ég fer yfir þróun stríðsins. Hér vil ég varpa frekara ljósi á bakgrunn þessarar deilu og reyni að skýra þá heift sem þróast hefur og ég hef líkt við hegðun villidýra.
Þann 7. október 2023 voru 1.195 saklausir borgarar, þar af 364 ungmenni, teknir af lífi af Hamas nálægt landamærum Gasa og 251 gísl tekinn. Þetta voru grimmilegar aðgerðir og ekkert sem afsakar þann gjörning. Eftirmál þessara atburða eru hefndaraðgerð sem varað hefur í 20 mánuði og felst í gjöreyðingu nánast allra mannvirkja á Gasa þar sem búa 3,5 milljónir manna. Það er búið að drepa yfir 55 þúsund manns á þeim 20 mánuðum sem liðnir eru, þar af yfir helmingur konur og börn, slasa 128 þúsund manns, leggja stærstan hluta heimila í rúst, hlífa engu, hvorki sjúkrahúsum né skólum, og taka af lífi fjölda óháðra fréttamanna og hjálparstarfsmanna. Er nokkuð sem getur réttlætt þann verknað, hver sem aðdragandinn er?
Saga átakanna
Eftir að Sameinuðu þjóðirnar samþykktu skiptingu Palestínu 29. nóvember 1947, þar sem gyðingum var úthlutað 56% landsins en Palestínumönnum, sem voru 2/3 af íbúum, aðeins 44%, hófst borgarastyrjöld milli þessara hópa. Síonísk hryðjuverkasamtök stóðu að því að 700 þúsund manns voru reknir frá heimilum sínum og voru það 80% íbúa af arabískum uppruna sem voru búsettir á því landi sem átti eftir að tilheyra Ísrael. Fjöldamorð voru framin af gyðingum og 400-600 þorp Palestínumanna lögð í rúst. Heildarfjöldi látinna í stríðsátökum á Gasa frá 2004-2020 er 6.400 Palestínumenn á móti 300 Ísraelum. Átökin minna á bardaga Davíðs og Golíats, slíkur er liðsmunurinn, og ekki hægt að réttlæta aðferðir Ísraels sem vörn. Allt frá stofnun Ísraelsríkis 14. maí 1948 hefur það markvisst unnið að því að stækka yfirráðasvæði sitt á kostnað annarra íbúa Palestínu.
Hin dökka hlið Ísraels
Ísraelsríki hafði í upphafi samúð á heimsvísu vegna helfarar gyðinga í seinni heimsstyrjöld en sú samúð hefur farið þverrandi, m.a. vegna eftirfarandi staðreynda:
Ísraelsríki hefur verið ákært af alþjóðadómstólnum fyrir þjóðarmorð og alþjóðaglæpadómstóllinn hefur gefið út handtökuskipan á Benjamín Nethanjahú fyrir glæpi gegn mannkyni og liggur fyrir fjöldi sannana um dráp á almennum borgurum, árásir á sjúkrahús og skóla og markvissa stefnu um að hindra aðgang hjálpargagna að Gasa. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur einnig ályktað að Ísrael noti kynferðislegt ofbeldi til þess að „ná valdi yfir og eyðileggja íbúa Palestínu“, þ. á m. eru sprengjuárásir á fæðingarheimili og að hindra aðgang að nauðsynlegum lyfjum og læknishjálp fyrir ófrískar konur.
Ísraelar hafa beitt fangelsunum á Palestínubúum sem vopni til að halda þeim niðri, í mörgum tilfellum án ákæru og dóms. Í júlí 2024 voru 9.623 palestínskir fangar í ísraelskum fangelsum, þar af 4.781 án ákæru eða dóms. Samkvæmt Rauða krossinum hafa 6.700 Palestínubúar á aldrinum 12-18 ára verið fangelsaðir á árunum 2000-2023.
Pyntingar við yfirheyrslur á föngum hafa viðgengist í ísraelskum fangelsum. Árið 1997 gaf nefnd Sameinuðu þjóðanna yfirlýsingu um að þessar aðferðir væru í bága við samþykktir Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum og refsingum fanga. Eftir dóm hæstaréttar Ísraels um að leyniþjónustu landsins væri óheimilt að nota slíkar aðferðir var þeim hætt eftir 50 ár.
Lokaorð
Íbúar Gasa lifa svo sannarlega ekki í allsnægtum eins og fram kom í grein Ragnheiðar. Þeir lifa flestir við hungurmörk eftir að lokað var fyrir aðstoð alþjóðlegra hjálparstofnana til svæðisins og nánast öll mannvirki eyðilögð. Þeir þurfa að reiða sig á styrki frá hjálparstofnunum og einstaklingum til þess að útvega sér mat og nauðsynleg lyf. Þau dæmi sem Ragnheiður nefnir um ríkidæmi Hamas-liða eiga ekki við um hinn almenna borgara, ekki frekar en almennir borgarar í Ísrael beri ábyrgð á þjóðarmorði stjórnvalda. Og uppruni gyðinga er svo sannarlega í Palestínu og það er ástæða þess að landflótta gyðingum var úthlutað „þjóðarheimili“ í Palestínu árið 1917. Það var gert í góðri trú en enginn sá fyrir það ofbeldi sem í hönd fór gagnvart þáverandi íbúum Palestínu. Ísraelsmenn hafa hunsað ályktanir Sameinuðu þjóðanna varðandi útþenslustefnu sína endurtekið og einnig brotið gegn alþjóðalögum um stríðsrekstur, búsetu eigin borgara á herteknum svæðum og meðferð fanga.
Hvað er villidýr? Ríki sem virðir ekki alþjóðleg lög varðandi stríðsrekstur, sem felast m.a. í því að lágmarka dauðsföll almennra borgara og tryggja neyðaraðstoð og læknishjálp. Ríki sem tælir fólk á stöðvar fyrir mataraðstoð, aðeins til þess að geta valið úr fórnarlömb sem hægt er að skjóta.
Hér er nýleg hversdagssaga frá Gasa: Abdullah Abed, 18 ára, freistaði þess að ná í mat á ameríska matarstöð fyrir systkini sín og foreldra. Þar var hann tekinn af lífi, með skoti þráðbeint í ennið.
Höfundur er verkfræðingur og áhugamaður um mannréttindi.