Vatnsfellsstöð Ein sjö virkjana sem Landsvirkjun rekur á Þjórsársvæðinu.
Vatnsfellsstöð Ein sjö virkjana sem Landsvirkjun rekur á Þjórsársvæðinu. — Ljósmynd/Landsvirkjun
Staða í miðlunarlónum Landsvirkjunar er með ágætum nú þegar komið er fram undir lok júnímánaðar. Innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar það sem af er þessu ári hefur verið hagfellt og vorflóðin í maí skiluðu sér vel inn í lónin, segir í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun

Staða í miðlunarlónum Landsvirkjunar er með ágætum nú þegar komið er fram undir lok júnímánaðar. Innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar það sem af er þessu ári hefur verið hagfellt og vorflóðin í maí skiluðu sér vel inn í lónin, segir í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun.

Þannig fór Blöndulón á yfirfall tímabundið í lok maí. Hægt hefur á vatnssöfnun nú í júní, en í júlí eykst jafnan afrennsli af jöklum sem skilar sínu, sérstaklega í Hálslón.

„Allar líkur eru á að Blöndulón og Hálslón fyllist í sumar, eins og undanfarin sumur. Þá teljast núna góðar líkur á að Þórisvatn fyllist, en það gerðist síðast haustið 2019,“ segir í tilkynningu, en Þórisvatn stendur nú þegar tveimur metrum hærra en hæsta staða var haustið 2024.

„Því er útlitið þannig að ekki þurfi að grípa til takmarkana á afhendingu raforku vegna vatnsskorts næsta vetur,“ segir í tilkynningu Landsvirkjunar.