13. júní Frá 102 ára afmælinu. Odd, sonur Önnu, Anna og Nanna. Marianne Petersen, kona Odds, fyrir aftan.
13. júní Frá 102 ára afmælinu. Odd, sonur Önnu, Anna og Nanna. Marianne Petersen, kona Odds, fyrir aftan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Karlakórinn Fóstbræður á sér um 109 ára sögu og honum fylgja margir dyggir stuðningsmenn. Einn þeirra fagnaði 102 ára afmæli sínu 13. júní sl. og fékk óskalag á tónleikum kórsins í Trekroner-kirkjunni í Hróarskeldu í Danmörku þremur dögum síðar

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Karlakórinn Fóstbræður á sér um 109 ára sögu og honum fylgja margir dyggir stuðningsmenn. Einn þeirra fagnaði 102 ára afmæli sínu 13. júní sl. og fékk óskalag á tónleikum kórsins í Trekroner-kirkjunni í Hróarskeldu í Danmörku þremur dögum síðar. Aðdáandinn hafði hlýtt á kórinn einu sinni áður, í Kaupmannahöfn 1996, þegar kórinn var á söngferðalagi um Norðurlöndin, en hefur auk þess hlýtt á söng hans af geisladiskum í gegnum árin.

Hjónin Nanna K. Sigurðardóttir og Smári S. Sigurðsson kynntust Önnu Petersen, fatahönnuði og fjölskylduráðgjafa, á námsárum sínum í Danmörku fyrir rúmlega hálfri öld og hafa þau haldið góðu sambandi síðan. Anna hefur mjög oft komið til Íslands og þau hafa heimsótt hana. „Nanna og Anna hafa átt langa og farsæla vináttu,“ áréttar Smári. „Hún hreifst strax af íslensku ullinni og þeim afurðum sem íslenskar konur höfðu skapað úr henni. Á árum áður þeystust þær um landið þvert og endilangt til að heimsækja prjóna- og saumastofur og kaupa ullarvörur, sem hún hafði síðan með sér til Danmerkur og notaði í fatahönnun sinni.“

Fóstbræður komu víða við

Fóstbræður fara reglulega í tónleikaferðir til útlanda og fyrir skömmu var haldið til Danmerkur, þar sem kórinn söng á þrennum tónleikum auk þess sem hann söng á sérstakri fjölskylduskemmtun Íslendingafélagsins í Femören á Amager-strönd í Kaupmannahöfn 14. júní. Kórfélagar hafa átt gott samstarf við kóra á Norðurlöndum og fyrstu tónleikarnir í ferðinni voru í Kristjánskirkju í Kaupmannahöfn með Danska stúdentakórnum (Dansk Studenter-Sangforening, stofnaður við Kaupmannahafnarháskóla 1839). Síðan voru tónleikarnir í Hróarskeldu og yfirreiðinni lauk á sérstökum Íslandsdegi í Tívolí 17. júní.

Nýjustu samskipti hjónanna og Önnu voru í tengslum við afmæli hennar og tónleika Fóstbræðra í Danmörku. „Hún ákvað að drífa sig á tónleikana með hluta fjölskyldunnar og eins og áður var hún himinlifandi með skemmtunina,“ segir Smári.

Anna hefur alla tíð verið frekar róttæk, að sögn Smára. Á 90 ára afmæli hennar söng hann Maístjörnuna fyrir hana. „Ég vissi samstundis að hún hefði gaman af því að heyra kórinn flytja lagið og skömmu fyrir tónleikana í Hróarskeldu stakk ég því að Árna Harðarsyni kórstjóra hvort það kæmi til greina að bæta laginu við í lokin Önnu til heiðurs í tilefni 102 ára afmælisins. Af sinni alkunnu ljúfmennsku gerði Árni þetta með glæsibrag og brosið fór ekki af þeirri gömlu.“ Odd, sonur Önnu, hafi mætt á tónleikana með íslenska og danska fánann og það hafi ýtt undir stemninguna. Þegar kórinn gekk af sviðinu stoppuðu félagarnir þar sem Anna sat og óskuðu henni til hamingju með afmælið. „Það fullkomnaði verkið,“ segir Smári.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson