Tæpitungulaust Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar NATO-fundinn sem nú er nýlokið í Haag, en hann knúði á um aukin varnarútgjöld.
Tæpitungulaust Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpar NATO-fundinn sem nú er nýlokið í Haag, en hann knúði á um aukin varnarútgjöld. — AFP/Nicolas Tucat
Nýjar brýr og fjárveitingar til vegagerðar, lestarstöðva og hafna eru meðal þeirra úrræða sem stjórnvöld aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins NATO ætla að grípa til í viðleitni sinni til að mæta nýjum markmiðum bandalagsins um fimm prósenta viðmiðið …

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

Nýjar brýr og fjárveitingar til vegagerðar, lestarstöðva og hafna eru meðal þeirra úrræða sem stjórnvöld aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins NATO ætla að grípa til í viðleitni sinni til að mæta nýjum markmiðum bandalagsins um fimm prósenta viðmiðið í varnarmálum, það er að segja að fimm prósent af þjóðarframleiðslu renni til varnar- og öryggismála.

Þar af eiga 3,5% að fara í beinhörð útgjöld til varnarmála, það er, til þess að styrkja heri bandalagsríkjanna og tryggja að þeir mæti kröfum bandalagsins um hernaðargetu, en 1,5% eiga þess í stað að renna til „varnartengdra innviða“, það er innviða sem ætla má að þurfi að vera í góðu lagi komi til árásar á bandalagsríkin, og sem herir ríkjanna geta þá nýtt sér í varnarbaráttu sinni.

Þýska vikuritið Der Spiegel fjallaði sérstaklega um þann þátt að loknum leiðtogafundi NATO í Haag í Hollandi, sem lauk í fyrradag, og segir greinarhöfundur frumleika stjórnvalda NATO-ríkja með ágætum er að því kemur að seilast upp í prósentin fimm.

Kynntu Ítalir þar til dæmis ævafornar áætlanir um brú milli Sikileyjar og meginlands Ítalíu sem upprunalega litu dagsins ljós árið 1866 og hafa æ síðan reglulega skotið upp kollinum sem hálfgerður brandari meðal Ítala.

Brúin bráðnauðsynleg

Brúin sú kæmi að núvirði til með að kosta þrettán milljarða evra, jafnvirði tæplega 1.850 milljarða íslenskra króna, og hefur ítalski forsætisráðherrann Giorgia Meloni nú lýst því yfir að tíminn sé kominn – Sikileyjarbrúin skuli verða að raunveruleika, 3,6 kílómetra löng brú sem brúar sundið milli ítölsku borgarinnar Messina og stærstu eyjar Miðjarðarhafsins.

Á NATO-fundinum var verkefnið kynnt sem „hernaðarinnviðir“ og rökstutt með því að brúin yrði bráðnauðsynlegt mannvirki fyrir hreyfanleika ítalska hersins á ögurstundu. Sé litið til verðmiða brúarsmíðinnar, þrettán milljarða evra, ofan á önnur varnarmálaútgjöld næðu Ítalir upp í fimm prósenta markið sem NATO hefur sett aðildarríkjum sínum sem heimaverkefni.

Fleiri ríki gætu að sögn Der Spiegel farið með himinskautum þegar kemur að því að tengja dýrar framkvæmdir varnarmálum. Þannig gætu Hollendingar byggt fleiri stíflur til varnar því að sjórinn flæði yfir landið sem liggur svo lágt að allt yfirborð þess er nánast við sjávarmál. Og gætu hin rómuðu hollensku síki ekki tryggt öruggan flutning vígtóla væri nokkrum milljörðum evra fleygt í framkvæmdir við þau?

Styrking fransks vegakerfis

Friedrich Merz Þýskalandskanslari tekur í sama streng og Meloni á Ítalíu. Kanslarinn vill verja 1,5 prósentum þjóðarframleiðslunnar til að byggja brýr og vegi. Slík samgöngumannvirki auðvelda flutninga hernaðargagna komi til styrjaldar.

Franska ríkisstjórnin vill styrkja vegi landsins og byggir þá áætlun sína raunar á nýlegum rökum – svo þungir eru frönsku Leclerc-skriðdrekarnir að erfiðleikum hefði verið bundið að flytja þá til Úkraínu eftir evrópskum vegum þegar Frakkar íhuguðu að styrkja Úkraínumenn með slíkum drekum fyrir tveimur árum.

Danir, Finnar, Svíar og Spánverjar vilja hins vegar fara þá leið að efla hafnir sínar og um alla Evrópu ræða stjórnvöld NATO-ríkja fjárfestingar í járnbrautarteinum og -stöðvum, flutninganetum raforku og olíuleiðslum. Því hugmyndaríkari stjórnvöld – þeim mun nálægra verður fimm prósenta markmið.

Hve lengi endist ríki í styrjöld?

Mörg þessara verkefna virðast að mati Der Spiegel einfaldlega hernaðarlegar bókhaldsbrellur. Engu að síður var þeim vel tekið í Haag. „Það er stórkostlegt að í fyrsta sinn erum við að bregðast við af raunsæi,“ segir Benedikt Franke, stjórnarformaður Öryggismálaráðstefnunar í München. „Hvernig getum við gert vegi notadrýgri? Hvernig geta flutninganet raforku orðið stöðugri? Hve lengi endist ríki í styrjöld?“ spyr hann og kveður slíkum spurningum best svarað á breiðum grundvelli.

Þannig má fella marga framkvæmdina undir öryggis- og varnarmálaútgjöld. Franke nefndi sérstaklega Norðurlöndin sem fyrirmynd. Í Svíþjóð séu til dæmis í raun tveir varnarmálaráðherrar, einn sem sjái um hinn eiginlega her og annar sem hafi almannavarnir og viðbrögð við stórslysum á sinni könnu. „Mörg ríki í Evrópu eru að standa sig betur og hafa meira viðnámsþol en við [Þjóðverjar],“ segir Franke.

Oana Lungescu, sem var helsti talsmaður NATO frá 2010 til 2023, segir breytt ástand í alþjóðamálum kalla á nýjar lausnir. Lungescu, sem nú er hjá bresku varnarmálahugveitunni RUSI, segir að nú standi vesturveldin frammi fyrir herferð skemmdarverka og aðgerða til að grafa undan stöðugleika þeirra, þar sem netárásir og árásir á mikilvæga innviði á borð við sæstrengi sé í fyrirrúmi. Svör við þessum fjölþátta aðgerðum falla ekki lengur undir hinar hefðbundnu skilgreiningar á fælingarmætti og vörnum að hennar mati.

Aðspurð hvort risaverkefni á borð við Sikileyjarbrúna séu ekki einfaldlega leið til þess að setja „fitu“ á útgjöldin segir hún að það sé vissulega nokkurt svigrúm til túlkunar, og að NATO muni þurfi að eiga erfið samtöl um sum verkefnin við bandalagsríkin. „Hvers vegna viltu gera þetta? Hver er tilgangurinn? Hvernig eykur þetta getu ykkar til þess að fæla vopnaðar árásir eða annars konar árásir?“ Þetta séu þær spurningar, sem Lungescu segir nauðsynlegt að spyrja svo að ríkin sitji ekki uppi með risaframkvæmdir með vafasamt hernaðargildi.

Í grein Der Spiegel kemur fram að líklega muni Evrópuríkin ekki þurfa að óttast of harða gagnrýni á áætlanir sínar, þar sem Bandaríkin, helsta bandalagsþjóðin, horfi einnig til 1,5% markmiðsins sem leið til þess að styðja við verkefni sem hægt sé að skilgreina sem „dual-use“, þ.e. að þau nýtist bæði almenningi og hernum. Þar á meðal eru á prjónunum áform um að reisa nýja þjóðvegi og borgaralega flugvelli, sem geta þá einnig nýst til þess að gera herflutninga skilvirkari.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson