Viðtal
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Sementstankarnir á Akranesi fá nýtt hlutverk á næstu árum ef hugmyndir Lárusar Freys Lárussonar arkitekts ná fram að ganga. Lárus lauk meistaranámi í arkitektúr við Listaháskóla Íslands í vor og var lokaverkefni hans metnaðarfullt þróunarverkefni þar sem lögð er áhersla á að halda uppi heiðri þessara sögufrægu mannvirkja. Tankarnir munu nýtast sem fjölbreytt rými sem þjónar íbúum, styður við mannlíf og heiðrar arfleifð svæðisins.
„Það er mikil uppbygging fyrirhuguð á sementsreitnum en ekkert rætt um hvað eigi að gera við sementstankana. Mig langaði að leggja fram hugmynd svo að eitthvað yrði mögulega gert í stað þess að tankarnir yrðu látnir bíða, grotnuðu niður og yrðu svo kannski rifnir. Það væri hræðilegt upp á sögulegt gildi þeirra,“ segir Lárus, sem einnig er húsasmíðameistari, í samtali við Morgunblaðið.
Líflegt samkomusvæði
Verkefni Lárusar kallast Portland, sem vísar til sementstegundarinnar sem framleidd var á svæðinu. Hann segir að mikilvægt sé að hlúa að eldri mannvirkjum sem þessu og bera fyrir þeim virðingu, ekki sé alltaf hægt að rífa niður og byggja nýtt. Þannig kalla hugmyndir hans ekki á að land verði brotið við framkvæmdirnar, aðeins er byggt utan um sílóin.
Verkefnið snýst að sögn Lárusar um að varðveita sögulegt gildi sílóanna á sama tíma og þeim er gefið nýtt hlutverk. Tilgangurinn er að skapa líflegt samkomusvæði sem hvetur til samfélagslegra tengsla og vaxtar. Sílóin verða aftur hluti af daglegu lífi bæjarbúa – og nýr áfangastaður fyrir bæði heimamenn og gesti. „Þetta er framtíð sem byggir á fortíð – og horfir fram á veginn,“ segir hann.
Mikil uppbygging fram undan
Í lokaverkefni sínu rekur Lárus að því sé spáð að íbúum á Akranesi muni fjölga um 22% á næstu tíu árum. Fyrirhuguð sé mikil húsnæðisuppbygging og á sama tíma eigi að verða til nýr miðbæjarkjarni á gamla sementsreitnum.
Lárus segir að í rannsóknum sínum í tengslum við verkefnið hafi komið í ljós að þjónusta á Akranesi sé mjög dreifð og auka mætti möguleika til að njóta menningar og félagslegra athafna. Ekki sé skortur á aðstöðu til íþróttaiðkunar, skólar séu góðir og heilbrigðisþjónusta sömuleiðis. Jafnframt hafi íbúar aðgang að fallegri höfn og náttúrulegum ströndum. Samfélagsmiðstöð yrði að hans mati mikil lyftistöng fyrir bæjarfélagið.
Veitingastaður með útsýni
„Akranes er vaxandi bær, hvernig ætlar Akranes að taka á móti öllum þessum nýja íbúafjölda? Mér finnst vanta samfélagslegan stað þar sem til dæmis yngri kynslóðir geti hitt þær eldri og fólk lært hvert af öðru,“ segir Lárus.
Hann segir að staðsetning sementstankanna sé fullkomin fyrir samfélagsmiðstöð. „Þetta er miðja bæjarins og mín hugsun snerist um það hvernig ég gæti búið til sterkt hjarta fyrir alla þarna.
Þarna sé ég fyrir mér að bókasafn bæjarins verði, kaffihús og íverurými til að njóta þess að horfa yfir höfnina. Á jarðhæð verði safn sem á að heiðra sögu steinsteypunnar á Íslandi og þarna verði líka eitthvað fyrir börn og fyrir gesti sem gætu fengið sér bíltúr þangað um helgar. Uppi á toppnum yrði svo veitingastaður með sturlað útsýni til allra átta.“
Bæjarstjórinn sáttur
Tillögurnar áhugaverðar
„Við erum mjög ánægð með þetta frumkvæði Lárusar og að hann skuli láta sig framtíð svæðisins varða,“ segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi.
Hann segir að samningar um nýtingu tankanna renni út 2028 og því sé tímabært að huga að framtíð þessara bygginga. Stefnt sé að því að byggja framtíðaraðsetur stjórnsýslu bæjarins á svæðinu og útibú ríkisstofnana verði þar jafnvel líka auk heilsugæslu.
„Við viljum að gamli miðbærinn verði enn á ný miðja Akraness og þessar tillögur hans eru frábær umræðukveikja um hvernig framtíðin verður þarna. Þetta er nokkuð sem vel er hægt að vinna áfram.“