[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu er nær ósýnilegur hópur sem krefst margþættrar þjónustu. Margt má betur fara í þeirri þjónustu.

Kristján Sverrisson

Fólk með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu er einn af þeim hópum sem eru hvað afskiptastir og oft lítið tekið eftir og löngu tímabært að viðurkenna þessa fötlun.

Þessi ósýnileiki veldur kerfisbundinni útilokun sem mörg upplifa þegar þau krefjast réttinda sinna eða reyna að nálgast nauðsynlega þjónustu. Daufblinda er einstakt fötlunarform sem stafar af samsettri skerðingu á sjón og heyrn. Talið er að þessi fötlun hrjái 0,2% til 2% af íbúum jarðar. Einstaklingar með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu standa frammi fyrir verulegum hindrunum í samskiptum, hreyfanleika, menntun og aðgangi að upplýsingum. Bæði meðfædda og þróaða sjón- og heyrnarskerðingu þarf að viðurkenna á jafnréttisgrundvelli, þar sem hvort tveggja krefst sérhæfðs og aðlagaðs stuðnings. Þetta felur m.a. í sér aðgang að túlkun fyrir sjón- og heyrnarskerta einstaklinga, sértæka þjónustu, þjálfaða kennsluaðstoðarmenn og sérfræðinga í menntun og umönnun. Þrátt fyrir þessar skýru þarfir er samþætt sjón- og heyrnarskerðing nær ósýnileg í umfjöllun á vettvangi stjórnmála, heilbrigðis- og félagsmála, sem leiðir til tölfræðilegs ósýnileika, takmarkaðrar þjónustu og útilokunar.

Aldraðir sem hverfa í myrkur og þögn

Við Íslendingar þurfum að taka okkur tak. Brýn nauðsyn er á rannsóknum á (raunverulegri) tíðni samþættrar sjón- og heyrnarskerðingar hér á landi og sérstaklega þarf að huga að þeim stóra hópi aldraðra sem, vegna verulegrar skerðingar á báðum skynfærum, eru með vangreindan vanda og hafa engan aðgang að úrræðum.

Ef litið er á tölfræði, sem svokallaðar RAI-kannanir á þjónustuþörf aldraðra á elli- og hjúkrunarheimilum skrá, kemur í ljós að ótrúlega stór hópur innlagðra er með verulega mikla sjón- og heyrnarskerðingu sem skerðir tjáskiptafærni og félagslega þátttöku. Hluti þeirra er með hvort tveggja og myndu líklega falla undir greiningu um samþætta sjón- og heyrnarskerðingu ef einhver væri að leita! Þetta fólk hverfur inn í myrkur og þögn og er svipt miklum lífsgæðum á síðustu árum ævinnar.

Það er von höfundar að yfirvöld heilbrigðis- og fötlunarmála taki á þessum málum og verji fjármunum og mannafla til að rannsaka stöðu fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu hér á landi og vinni að átaki til bættrar þjónustu í framtíðinni.

Dagur daufblindu er haldinn 27. júní ár hvert á afmæli Helen Keller, daufblindrar baráttukonu fyrir réttindum blindra og heyrnarlausra (1880-1968).

Höfundur er forstjóri Heyrnar- og talmeinastöðvar.

Höf.: Kristján Sverrisson