Signý Pála Pálsdóttir
signyp@mbl.is
Samanburður, samvera og mótlæti hafa mikil áhrif á hamingju fólks í parsamböndum, að því er fram kemur í rannsókn sem Kristín Tómasdóttir framkvæmdi í meistaranámi í fjölskylduráðgjöf í Háskóla Íslands. Kristín er hjónabandsráðgjafi og skrifaði meistararitgerð sem fjallaði um hamingjusöm pör á Íslandi. Kristín hefur starfað sem hjónabandsráðgjafi á sinni eigin stofu í sex ár, frá því að hún útskrifaðist sem fjölskyldufræðingur. Hún segist hafa óbilandi áhuga á ástinni og þeim pörum sem komi til hennar, „ég gerði þessa rannsókn af því að ég brenn fyrir þessu og er að kafna úr áhuga,“ segir hún.
Við gerð rannsóknarinnar tók hún viðtöl við átta pör sem upplifa sig í hamingjuríku sambandi. Hún lagði fyrir pörin stuttan matskvarða um hamingju í parsamböndum og öll pörin mældust mjög hátt á þeim lista. Hún tók einnig viðtöl við pörin og greindi þá þætti sem þessi pör ættu sameiginleg og væru stærsti áhrifaþátturinn í hamingju þeirra.
Margir áhrifaþættir
Helstu niðurstöður Kristínar eru að samanburður við önnur parsambönd ýtir undir hamingju í eigin sambandi fólks. Einstaklingar sem hafa verið í sambandi áður og hafa samanburð á hamingju í fyrra sambandi upplifa oft meira þakklæti fyrir núverandi samband og eru því hamingjusamari. „Það ýtir undir það að fólk finni hamingjuna í sambandinu sínu,“ segir Kristín. Samanburður við parsambönd í kringum einstaklinga, eins og sambönd vina og foreldra, ýtir einnig undir hamingju þeirra.
Hún segir þessar niðurstöður á skjön við það sem almennt er talið um samanburð, þar sem samanburður við annað fólk dregur oft úr hamingju fólks þar sem það upplifir sig ekki hafa eitthvað sem annar einstaklingur hefur. Niðurstöður Kristínar eru hins vegar þær að fólk sem upplifi sig hamingjuríkt upplifi meiri hamingju þegar það finni að sú hamingja sé ekki öllum gefin.
Hún segir mótlæti hafa styrkjandi áhrif á hamingju í parsamböndum. Fólk upplifi þakklæti fyrir parsambandið sitt þegar það lendir í mótlæti, sem hafi styrkjandi áhrif. Samvera sé einnig algjör lykilþáttur í hamingju í samböndum.
Það sem Kristínu þótti einkennandi fyrir Ísland var að fólk talaði mikið um samheldni og samstarf í daglegu lífi sem áhrifaþátt á hamingju í sambandi. Fólk upplifir meiri hamingju í sambandi sínu þegar það upplifir að makinn vinni með því að verkefnum og það vinnur saman að verkefnum, eins og að fara í búð.
Brennur fyrir ástinni
Áhugi Kristínar á viðfangsefni ritgerðarinnar kviknaði út frá því að hún upplifði sjálf hvað ástin getur haft mikil áhrif á hamingju fólks. „Ástin getur haft eiginlega bara pirrandi mikil áhrif á hamingju okkar, af því að við viljum að hamingjan komi innan frá,“ segir hún. Hún segir algengt að fjalla um pör sem glími við erfiðleika eða óhamingju, sem er oft það sem hún fæst við í sínu starfi, og ákvað því að skoða hina hliðina og þá hvort hún gæti ekki lært eitthvað af þeim pörum sem upplifa sig hamingjusöm í eigin samböndum til þess að geta hjálpað fólki sem er það ekki.
Kristín segist hafa reynt að hjálpa fólki að styrkja sjálfsmynd sína, þar sem sterk sjálfsmynd hafi mikil áhrif á hamingju en segir ástarsambönd vera þá breytu sem geti haft mest áhrif á sjálfsmynd fólks. „Bæði geta ástarsambönd dregið verulega úr hamingju fólks og bætt verulega miklu við,“ segir hún og bætir því við að fólk í góðu parsambandi mælist almennt hamingjusamara en annað fólk.
Næsta skref hjá Kristínu er doktorsnám þar sem hún ætlar sér að skoða hina hliðina á peningnum og rannsaka háágreiningsmál eftir skilnað. „Ég gæti eiginlega ekki verið fjær því sem ég var að rannsaka,“ segir hún.
Áhrifaþættir
Verja miklum tíma saman
Rauður þráður í rannsókninni er að fólk upplifir sig sjálft hamingjusamt í sambandi sínu og er meðvitað um hvað það er heppið með samband sitt og hvað það er í hamingjuríku og góðu sambandi. Íslendingar leggja ríka áherslu á samstarf við makann hafi áhrif á hamingju í sambandi. Erfiðleikar ýta einnig undir hamingju fólks í samböndum. Hamingjusöm pör verja miklum tíma saman. Fólk sem vill verja miklum tíma saman og nýtur þess að vera með maka sínum er hamingjusamara. Hægt að læra margt af hamingjuríkum og góðum samböndum.