RÚV Skiptar skoðanir í stjórn Ríkisútvarpsins um málefni Eurovision.
RÚV Skiptar skoðanir í stjórn Ríkisútvarpsins um málefni Eurovision. — Morgunblaðið/Eyþór
Afar skiptar skoðanir voru á málefnum tengdum Eurovision á fundi stjórnar Ríkisútvarpsins hinn 28. apríl síðastliðinn. Fundargerð fundarins var birt í vikunni. Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var með yfirferð um stöðu og þróun mála í Eurovision og þátttöku Ísraels í keppninni

Afar skiptar skoðanir voru á málefnum tengdum Eurovision á fundi stjórnar Ríkisútvarpsins hinn 28. apríl síðastliðinn. Fundargerð fundarins var birt í vikunni.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var með yfirferð um stöðu og þróun mála í Eurovision og þátttöku Ísraels í keppninni. Tilefni yfirferðarinnar var sagt að þátttaka Ísraels í henni yrði rædd á aðalfundi EBU í byrjun júlí og á öðrum fundum sambandsins.

Stefán Jón Hafstein, formaður stjórnar RÚV, lagði í kjölfarið fram svohljóðandi bókun fyrir hönd fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna í stjórninni: „Komi fram tillaga á vettvangi EBU um að vísa ísraelska ríkisútvarpinu úr samtökunum og/eða söngvakeppninni vegna framgöngu ísraelskra stjórnvalda gagnvart íbúum á Gaza-svæðinu beinir stjórn þeim tilmælum til Ríkisútvarpsins að styðja slíka tillögu að höfðu samráði við stjórn. Þar er vísað til fordæmis gagnvart Rússlandi og Hvíta-Rússlandi vegna óviðunandi framgöngu þeirra ríkja.“

Í tilefni af bókun meirihlutans lagði Ingvar Smári Birgisson, fulltrúi Sjálfstæðisflokks, fram tillögu um að útvarpsstjóra yrði falið að óska eftir skriflegu áliti hluthafa Ríkisútvarpsins, hvers fulltrúi er ráðherra menningarmála, á því hvort Ríkisútvarpið ætti að styðja áðurnefnda tillögu á vettvangi EBU.

Fjórir stjórnarmenn studdu tillöguna en hún var felld með fimm atkvæðum meirihlutans. Þá lagði Eiríkur S. Svavarsson, fulltrúi Miðflokksins, fram bókun þar sem hann kvaðst ekki telja að stjórnin hefði umboð til umræddrar ákvarðanatöku. Hún væri í eðli sínu pólitísk og rétt að um hana hefði útvarpsstjóri samráð við ráðherra á sama hátt og gert var þegar Rússlandi var vikið úr Eurovision. Hinir þrír fulltrúar minnihluta lýstu þá yfir að þeir styddu bókunina. hdm@mbl.is