Signý Pála Pálsdóttir
signyp@mbl.is
Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey býður upp á sólarhringssiglingu sem hefst kl. 8.00 í dag og stendur yfir til kl. 8.00 í fyrramálið. Tveir bátar af gerðinni RS Quest frá siglingafélaginu munu sigla stanslaust í 24 klukkustundir í Fossvoginum.
Þetta er í fyrsta skiptið sem siglingafélagið heldur sólarhringssiglingu en markmiðið með verkefninu er að vekja athygli á siglingaíþróttinni sem iðkuð er í Fossvoginum en er þó einnig fjáröflun. Fyrirtæki og einstaklingar hafa verið að heita á verkefnið og fer allur ágóði þess í afrekssjóð siglingafélagsins.
Afrekshópurinn fer á Norðurlandamót í Eistlandi í sumar, Evrópumót og í æfingaferðir út fyrir landsteinana í vetur og mun því ágóðinn af verkefninu koma sér vel fyrir hópinn.
Sigla seglum þöndum
Siglt er á um tíu mínútna fresti en hver sigling tekur um tíu mínútur og pláss er fyrir fjóra í hverjum bát. Aðgangur í siglinguna er ókeypis en siglingafélagið tekur þó við áheitum. Gunnar Kristinn Óskarsson deildarstjóri Brokeyjar segir kjörið fyrir fjölskyldur að líta við í Fossvoginn í siglingu og hvetur fólk til þess að mæta og „upplifa hvernig það er að sigla seglum þöndum og kynnast starfi félagsins“. Hann hvetur fólk til þess að klæða sig eftir veðri og vera í skóm sem mega blotna og fötum sem þola skvettur.
Siglinganámskeið Brokeyjar eru fjölbreytt og eru fyrir allan aldur og öll getustig.