Óskar Bergsson
Ólafur E Jóhannsson
Kjartan Leifur Sigurðsson
„Ég hef áhyggjur af byggðunum vegna þess að ef þetta frumvarp verður að lögum þýðir það m.a. minni tekjur fyrir sveitarfélögin. Þá þarf að draga saman, skerða þjónustu við íbúa og einhverjir munu missa störf,“ segir Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún, ásamt fleiri landsbyggðarþingmönnum stjórnarandstöðunnar, segir áhyggjur sínar ekki hafa minnkað eftir að meirihlutinn lagði loks fram réttar tölur. Þeir þingmenn stjórnarflokkanna sem náðist í styðja allir frumvarpið.
Staldra við og endurskoða
Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, segist vera á móti frumvarpinu.
Ég hef áhyggjur af því hvað verður ef þetta nær fram að ganga. Ég er á þeirri skoðun að hægt sé að hækka veiðigjöld en það þarf að gera í rólegheitum og með þeim sem koma að þessu, s.s. útgerðum og sveitarfélögum.
Hann segir nýjar tölur og upplýsingar ekki hafa breytt sinni afstöðu.
„Eftir því sem maður fer meira yfir málið og talar við útgerðarmenn og sveitarstjórnarfólk þá herðist ég í þeirri afstöðu að við þurfum að staldra við og endurskoða það sem verið er að gera.“
Þorgrímur Sigmundsson, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi, segir að ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur varðandi afkomu þessara sveitarfélaga. Það sé galin nálgun að fara svona geyst í þetta.
„Þetta er ekki bara spurning um afkomu útgerða heldur líka um ruðningsáhrif sem eru algeng í minni sveitarfélögum þar sem sjávarútvegurinn er eina stoðin í atvinnulífinu.“
Hann segist ekki vilja vera of dramatískur, en ef fjárfestingargeta í sjávarútveginum minnkar, þá séu ruðningsáhrifin fyrst og fremst samdráttur.
„Það verður minni aðkeypt þjónusta og minna viðhald. Ef það dugar ekki verður farið í launakostnaðinn og fólki fækkað. Afstaða mín hefur breyst að því leyti að nú er enn meiri þörf á alvörugreiningum. Sú tala sem lagt var upp með hefur hækkað verulega og því er enn meiri þörf á greiningum.“
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segir málið vera óunnið og langt gengið gagnvart hagsmunum byggðanna.
„Þetta er gríðarleg skattahækkun á mitt kjördæmi. Hér er verið að taka fullt af peningum úr raunhagkerfi kjördæmisins og einstaka sveitarfélög fá gríðarlega hækkun á sig. Ég hef áhyggjur af því að þetta komi til með að hafa áhrif á fjölda starfa og líka á fjárfestingargetuna, sem mun draga úr nýsköpun, en í Suðurkjördæmi hefur verið mikil nýsköpun í sjávarútvegi.“
Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi, segir málið ótækt eins og það er lagt fram núna.
„Greiningar atvinnulífsins sýna að litlar og meðalstórar útgerðir hafa sýnt í sínum tölum að hækkunin, eins og hún liggur fyrir í nefndaráliti meirihlutans, mun leiða til þess að starfsemi verði skorin niður eða jafnvel hætt. Það er ótti okkar og þeirra sveitarfélaga sem lagt hafa fram umsagnir – þetta gæti verið þúfan sem veltir hlassinu.“
Hann segir ánægjulegt að komist hafi verið að réttum tölum í nefndaráliti meirihluta atvinnuveganefndar.
„Menn skulu átta sig á því að 58 krónurnar sem lagt er upp með þar er ekki sama talan – 47 krónur – og er í frumvarpinu. Frumvarpið var lagt fram með röngum tölum – það er staðfest – og því er með ólíkindum að menn ætli að keyra þetta mál í gegn.“
Segja að ekkert hafi breyst
Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, segir afstöðu sína til frumvarpsins óbreytta.
Hún kveðst hafa lesið þau gögn sem málinu fylgja, spurð hvort hún hafi kynnt sér þær greiningar sem gerðar hafa verið varðandi áhrif á atvinnulífið.
„Störf geta glatast ef ákvarðanir fyrirtækjanna verða þess valdandi, en þetta frumvarp kallar ekki á það.“
Arna Lára segir afstöðu sína til frumvarpsins ekkert hafa breyst, þrátt fyrir að fram hafi komið nýjar tölur og upplýsingar.
„Skilningur á málinu hefur dýpkað, en afstaða mín hefur ekkert breyst,“ segir hún.
„Ég styð málið,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Spurð hvort hún hafi farið yfir þær greiningar sem unnar hafa verið varðandi áhrif á atvinnulífið í kjördæminu segist hún hafa gert það.
„Ég hef líka setið einn fund í atvinnuveganefnd sem varamaður og sá að verið er að vanda til verka. Ég held að auknir afslættir og hækkuð frítekjumörk komi verulega til móts við þær áhyggjur sem uppi hafa verið í sveitarfélögunum,“ segir hún og kveðst ekki hafa áhyggjur af því að störf í sjávarútvegi geti glatast eða flust úr landi verði frumvarpið að lögum.
Þetta verður öllum til heilla
„Ég skil að það séu áhyggjur af því, en þegar öllu er á botninn hvolft þá snýst þetta um það hvort fyrirtækin ætli að greiða sér út minni arð eða fara í einhvers konar hagræðingaraðgerðir til þess að geta haldið áfram að greiða sér mikinn arð. Ég hef þá trú á íslenskum sjávarútvegi að hann muni finna leiðir til að gera þetta og búa til sátt um þennan mikilvæga atvinnuveg,“ segir hún og nefnir að málið hafi verið vel unnið í nefnd og gott sé að betur hafi verið komið til móts við minni og meðalstór fyrirtæki með auknum afsláttum.
Afstaða hennar til frumvarpsins sé því óbreytt.
„Ég er bjartsýn á að þetta verði öllum til heilla,“ segir Ása Berglind.
„Að sjálfsögðu styð ég frumvarpið,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins í Suðurkjördæmi.
„Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það, en ég styð frumvarpið alla leið og ég held að flest stærri útgerðarfyrirtækin séu vel stödd og búið að koma til móts við hin fyrirtækin sem áhyggjur voru af,“ segir hún, spurð hvort hún hafi kynnt sér hvaða áhrif veiðigjöldin kunni að hafa á atvinnulífið í Suðurkjördæmi.
Hún kveðst engar áhyggjur hafa af því að störf kunni að flytjast úr landi verði frumvarpið að lögum og segir að afstaða sín til málsins sé óbreytt frá því sem var.
Ekki náðist í Eydísi Ásbjörnsdóttur, þingmann Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, þingmann Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, Sigurð Helga Pálmason, þingmann Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, og Víði Reynisson, þingmann Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.