María Rut Kristinsdóttir
María Rut Kristinsdóttir
Fyrir 15 árum urðu söguleg tímamót þegar hjúskaparlögum var breytt þannig að öll pör, óháð kyni, fengu jafnan rétt til hjónabands á Íslandi. Ein hjúskaparlög fyrir þau sem eru svo heppin að hafa fundið ástina

Fyrir 15 árum urðu söguleg tímamót þegar hjúskaparlögum var breytt þannig að öll pör, óháð kyni, fengu jafnan rétt til hjónabands á Íslandi. Ein hjúskaparlög fyrir þau sem eru svo heppin að hafa fundið ástina. Með því tók Alþingi þá afdráttarlausu afstöðu að ástin væri ekki einkamál sumra, heldur mannréttindi allra. Þessi breyting var hvorki tilviljun né sjálfsögð, hún var afrakstur áratugalangrar baráttu hinsegin fólks og bandamanna þeirra. Baráttu sem snýst um viðurkenningu og virðingu fyrir rétti einstaklinga til að elska og lifa til jafns við aðra.

Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað, þá hefur hún kennt okkur að engri réttarbót fylgi sjálfkrafa eilíft öryggi. Við getum ekki látið sem ekkert sé. Í dag horfum við upp á alvarlegt bakslag víða um heim, líka hér heima. Hinsegin ungmenni finna fyrir auknum fordómum, jafnvel ótta. Umræða sem áður var hlý og uppbyggileg getur nú orðið köld og niðrandi á svipstundu, jafnvel á opinberum vettvangi.

Við megum ekki sofna á verðinum. Mannréttindi eru ekki stök ákvörðun sem við tökum og setjum svo ofan í skúffu og gleymum. Þau eru lífæð samfélagsins okkar – eitthvað sem við verðum að verja á hverjum degi. Þess vegna skiptir máli að við stöndum saman þegar rætt er um réttindi hinsegin fólks. Að við látum í okkur heyra þegar fólk er útilokað, afskrifað eða gert ósýnilegt.

Baráttan fyrir einum hjúskaparlögum var tákn um breytta tíma og sönnun þess að samstaða og barátta getur breytt samfélaginu. Að sama skapi getur sundrung og þögn breytt samfélaginu, oftast til hins verra. Í auknum mæli heyrast sögur af ofbeldi og fordómum í garð hinsegin fólks um allan heim. Ef við stöndum ekki saman og látum ekki í okkur heyra er hætt við að réttaröryggi hverfi. Þegar samfélagið slær nýjan tón ber okkur skylda til að verja mannréttindi og berjast fyrir samfélagi þar sem allir geta lifað í öruggu umhverfi, óháð kynvitund sinni eða kynhneigð.

Það er ekki nóg að segja „öllum börnum á að líða vel“ ef við meiðum svo sum þeirra með orðum og aðgerðaleysi. Þess vegna þarf að minna á að þau réttindi sem hafa áunnist eru hvorki sjálfsögð né tilviljun. Engri réttarbót fylgir sjálfkrafa eilíft öryggi. Þess vegna skulum við standa saman – með hlýju, hugrekki og samkennd. Þessi réttindi skipta mig máli, ég er þakklát fyrir að hafa gengið í hjónaband heima á Flateyri fyrir sjö árum. Með konunni sem ég elska. Því það er ekki sjálfgefið.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar. mariarut@althingi.is

Höf.: María Rut Kristinsdóttir