Píanóleikari Artur Dutkiewicz var ánægður með viðtökurnar sem hann fékk frá áheyrendum í Hörpu.
Píanóleikari Artur Dutkiewicz var ánægður með viðtökurnar sem hann fékk frá áheyrendum í Hörpu. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Góð stemning var á tónleikum pólska djasspíanistans og tónskáldsins Arturs Dutkiewicz í Hörpu á miðvikudagskvöld en hann nýtur mikilla vinsælda í Póllandi og er oft nefndur sendiherra pólska djassins

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Góð stemning var á tónleikum pólska djasspíanistans og tónskáldsins Arturs Dutkiewicz í Hörpu á miðvikudagskvöld en hann nýtur mikilla vinsælda í Póllandi og er oft nefndur sendiherra pólska djassins.

Pólska sendiráðið á Íslandi efndi til tónleikanna en tilefnið var að formennskutíð Pólverja í Evrópusambandinu er að ljúka, nánar tiltekið á mánudaginn en Danir fara með formennskuna á síðari hluta ársins.

Dutkiewicz hefur leikið með þekktum tónlistarmönnum í gegnum tíðina. Meðal þeirra eru Tomasz Szukalski, Zbigniew Namysłowski, Jan Ptaszyn Wróblewski, Tadeusz Nalepa, Urszula Dudziak, Grazyna Auguscik, Deborah Brown, Lora Szafran, Michelle Hendricks, Carlos Johnson og Cyprien Katsaris, að því er sagði í tilkynningu frá pólska sendiráðinu.

Sagði þar líka að Dutkiewicz hefði útskrifast frá hinni virtu tónlistarakademíu í Katowice í Póllandi. Þá hefði hann verið sæmdur silfurmerkinu „Gloria Artis“ sem úthlutað er af pólska menningarráðuneytinu og komist í úrslit hinnar virtu samkeppni Thelonious Monk. Á farsælum ferli hefði hann leikið í yfir 70 löndum í sex heimsálfum en þetta væru fyrstu tónleikar hans á Íslandi.

Frá Singapúr til Reykjavíkur

Dutkiewicz segist í samtali við Morgunblaðið hafa leikið á tónleikum í Katowice í Póllandi, í Singapúr, í Helsinki í Finnlandi og í Bogota höfuðborg Kólumbíu á síðustu vikum.

Dutkiewicz á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana því afi hans var fiðluleikari og faðir hans tónlistarkennari.

Varðandi tónleikana í Hörpu segist hann hafa leikið um 90% af efnisskránni af fingrum fram en engir tvennir tónleikar séu eins.

Dutkiewicz segir aðspurður að Pólland sé gott land að sækja heim fyrir unnendur djasstónlistar en þar fari fram um 120 djasshátíðir á ári. Tónlistarlífið sé með miklum blóma.

„Þegar ég byrjaði að spila var aðeins ein deild fyrir djass í tónlistarskóla [á efsta námsstigi]. Nú eru átta deildir í jafn mörgum tónlistarskólum í Póllandi,“ segir Dutkiewicz.

Þriðja kynslóðin

Af hverju á Pólland svona frábæra tónlistarmenn?

„Ég skal ekki segja. Við höfum mjög góða tónlistarmenntun. Hvað varðar djassmúsík höfum við nú þriðju kynslóð tónlistarmanna, enda var djass vinsæll í Póllandi á 6. áratugnum. Djassinn byrjaði á tímum kommúnismans og var djasshátíðin í Varsjá ein af þeim bestu í kommúnistaríkjunum.

Við áttum á þeim tíma í mjög góðu samstarfi við tónlistarmenn frá Evrópu, sérstaklega frá Finnlandi, Skandinavíu og Frakklandi. Við unnum með alþjóðlegum hljómsveitum og höfðum mjög góð sambönd. Varðandi djassinn búa pólskir tónlistarmenn að mjög góðri menntun vegna þess að klassísk tónlistarmenntun er mjög sterk í Póllandi. Við höfum margar samkeppnir og tónlistarmenn fá langa og stranga menntun í grunnskóla, menntaskóla og háskóla. Tónlistarmenntunin tekur um 15 ár og við lærum mikið. Faðir minn var tónlistarmaður og kenndi börnum og ungmennum. Ég held að hefðin eigi líka sinn þátt í þessu. Við eigum mjög góð nútímatónskáld í Póllandi,“ segir Dziedzictwa og nefnir Krzysztof Penderecki og Witold Lutosławski en áður hafi Frédéric Chopin og Karol Szymanowski gert garðinn frægan.

Aftur til upprunans

Hvaða áhrif hafði það á tónlist ykkar í Póllandi að þið urðuð sjálfstæð þjóð eftir fall kommúnismans?

„Þegar við vorum undir járntjaldinu áttum við mjög persónulegan djass enda var þá í gangi bandaríski djassinn, skandinavíski djassinn og sá franski, sem var aðeins öðruvísi, en jafnframt var pólski djassinn öðruvísi vegna þess að við höfðum landamæri og þá áttum við mikla persónuleika,“ segir hann og nefnir Zbigniew Namysłowski sem dæmi.

Hafa hækkað rána

Hversu góð var spilamennskan?

„Hún var ekki í sama gæðaflokki og í dag. Áður hafði hvert tónskáld og hver tónlistarmaður sinn eigin hljóm og sín sérkenni. Nú eigum við marga tónlistarmenn sem hafa mjög góða menntun. Þeir spila mjög vel og faglega en tónlistin er ekki jafn einstaklingsbundin og áður. En spilamennskan er á hærra stigi. Nú höfum við tónlist sem er undir áhrifum frá öllum heimshornum en það ferli, hnattvæðingin, hófst eftir 10. áratuginn. Síðustu tíu ár held ég hins vegar að frumleiki eigin tónlistar þyki orðið mjög mikilvægur. Og þá leitar unga fólkið aftur í hefðina til að uppgötva mismunandi hljóma og tónsmíðar. Þau eru á réttri leið. Nú held ég að tengingin við pólskar rætur okkar sé í fyrsta sæti en áhrifin frá vestri í öðru sæti,“ segir Dutkiewicz að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson