Verðlaun Hlynur Björnsson er stoltur af verðlaununum Víking.
Verðlaun Hlynur Björnsson er stoltur af verðlaununum Víking.
„Við erum einstaklega stolt af þessum árangri,“ segir Hlynur Björnsson, vörumerkjastjóri Víking brugghúss, en Víking Gylltur hlaut á dögunum gullverðlaun hjá hinni virtu alþjóðlegu gæðakeppni Monde Selection 2025

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum einstaklega stolt af þessum árangri,“ segir Hlynur Björnsson, vörumerkjastjóri Víking brugghúss, en Víking Gylltur hlaut á dögunum gullverðlaun hjá hinni virtu alþjóðlegu gæðakeppni Monde Selection 2025.

Víking Gylltur er sem kunnugt er einn af þekktustu bjórum Víking brugghúss á Akureyri og kunna greinilega fleiri en Íslendingar að meta hann. Monde Selection er ein elsta og virtasta gæðakeppni heims fyrir drykkjarvörur og hafa verðlaunin verið afhent frá 1961. Sérfræðingadómnefnd skipuð fagfólki úr bruggun, smökkun og matvælaiðnaði leggur mat á bragð, lykt, útlit og jafnvægi vöru meðal annars. „Gullverðlaunin staðfesta þau háu gæðaviðmið sem Víking Gylltur uppfyllir í hverjum einasta dropa,“ segir Hlynur, sem hrósar fagmennsku bruggarateymis Víking.

„Það sem gleður okkur mest er að þessi viðurkenning endurspeglar það sem við höfum alltaf viljað skapa, gæðabjór fyrir öll okkar einstöku augnablik. Hvort sem það er við grillið, á ferðalagi með vinum eða þegar fagna þarf litlu sigrum dagsins er Víking Gylltur hluti af því. Við skálum því með öllum þeim sem gera þessar stundir einstakar.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Víking Gylltur hlýtur gullverðlaun hjá Monde Selection. Við grúsk í greinasafni Morgunblaðsins kom í ljós að hann hlaut gullverðlaun árið 2002 í flokki pilsen-bjóra. Áður hafði Víking Gylltur fengið gullverðlaun árið 1992 og silfurverðlaun árið 1997.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon