Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Sæferðir í Stykkishólmi freista þess nú að selja skemmtiskipið Særúnu, sem lengi hefur verið gert út til lystisiglinga um innanverðan Breiðafjörð. Forsaga málsins er sú að Sæferðir, dótturfélag Eimskips, sinntu lengi ætlunarferðum Breiðafjarðarferjunnar Baldurs, sem siglir milli Stykkishólms og Brjánslækjar á Barðaströnd með viðkomu í Flatey. Þær siglingar byggðu á samningum við Vegagerðina, sem bauð þessar ferðir út að nýju fyrir skömmu. Þar áttu Ferjuleiðir ehf. hagstæðasta tilboðið. Ferjuleiðir tóku svo við siglingum Baldurs um síðustu mánaðamót.
Baldur var hryggjarstykkið í rekstri Sæferða, sem nú vilja selja Særúnu. Er málum lýst svo að fyrir réttan aðila geti þetta verið frábært viðskiptatækifæri, enda þótt rekstrarmódelið henti Sæferðum ekki eins og nú er komið.
Þúsundir farið í siglingu árlega
„Auðvitað væri afar slæmt ef siglingarnar hér um fjörðinn, svokallaðar eyjasiglingar, með Særúnu dyttu út,“ segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.
„Siglingarnar hafa verið mjög mikilvæg stoð ferðaþjónustu hér á Snæfellsnesi í áratugi. Þær skipta raunar mjög miklu máli fyrir ferðaþjónustu á Vesturlandi heilt yfir. Þúsundir ferðamanna hafa á ári hverju farið í þessar siglingar að mynni Hvammsfjarðar og Klakkseyjum, þar sem sjávarfang hefur verið dregið um borð með plógi og svo er efnt til veislu.“
Jakob Björgvin segir að bæjaryfirvöld fylgist vel með framvindu mála og séu áfram um að eyjasiglingarnar hefjist að nýju, svo miklu skipti þær fyrir atvinnulíf í Stykkishólmi og fyrir svæðið í heild. Samtöl þar að lútandi hafi átt sér stað, þótt enn sé óseld Særún bundin við bryggju.