Skemmtiferðaskip Skipið MS Hanseatic lagðist að bryggju á fimmtudag.
Skemmtiferðaskip Skipið MS Hanseatic lagðist að bryggju á fimmtudag. — Morgunblaðið/Guðlaugur Albertsson
Hrun hefur orðið á komum skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar í kjölfar áforma stjórnvalda um innviðaskatt og afnám tollfrelsis á hringsiglingar. Mikið hefur verið um afbókanir á skipakomum í kjölfar umræðunnar og verða þær einungis níu í sumar en voru 29 í fyrra

Signý Pála Pálsdóttir

signyp@mbl.is

Hrun hefur orðið á komum skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar í kjölfar áforma stjórnvalda um innviðaskatt og afnám tollfrelsis á hringsiglingar. Mikið hefur verið um afbókanir á skipakomum í kjölfar umræðunnar og verða þær einungis níu í sumar en voru 29 í fyrra.

Gunnþórunn Bender, framkvæmdarstjóri Westfjords Adventures, segir þessi áform hafa slæm áhrif á Patreksfjörð þar sem um er að ræða litla höfn sem fær mörg leiðangursskip og talsvert tekjutap sem felst í því að missa hvert skip. Skipafélögin hafa mörg hver reiknað með því að taka á sig þann viðbótarkostnað sem fylgir þessari skattlagningu stjórnvalda fyrir þær ferðir sem hafa verið auglýstar og seldar en horfa á aðra áfangastaði en Ísland fyrir ferðir sínar árið 2027.

Gunnþórunn segir það gleymast að Ísland sé í mikilli samkeppni í áfangastöðum og það sé ekki svo að Ísland haldi dampi þrátt fyrir verðhækkanir. Ísland er í mikilli samkeppni við Noreg, Grænland, Færeyjar og Skotland um skipakomur og getur ákvörðun sem þessi haft gríðarleg áhrif á samkeppnishæfni landsins.

Verði ekki tekið til baka

Gunnþórunn bendir á að þrátt fyrir að áformin verði tekin til baka eða þeim breytt sé skaðinn skeður að einhverju leyti. „Áform um afnám tollfrelsis höfðu það í för með sér að komur voru dregnar til baka og skaðinn var skeður,“ sagði Gunnþórunn.

Áform sem þessi geta haft gríðarlega víðtæk áhrif á starfsemi sveitarfélaga, sem reiða sig mörg hver á ferðaþjónustu. Gunnþórunn telur að án skipanna sé rekstrargrundvöllur sinnar ferðaskrifstofu mun veikari en ella. Skatt þyrfti helst að leggja á í þrepum og með tveggja ára fyrirvara svo áhrifin verði ekki eins harkaleg.

Höf.: Signý Pála Pálsdóttir