Þorskur Þingmenn takast á um veiðigjaldafrumvarpið.
Þorskur Þingmenn takast á um veiðigjaldafrumvarpið. — Morgunblaðið/Hari
Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, er með böggum hildar yfir landsbyggðinni vegna veiðigjaldafrumvarpsins og óttast samdrátt, skerta þjónustu við íbúa og atvinnuleysi

Ingibjörg Davíðsdóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi, er með böggum hildar yfir landsbyggðinni vegna veiðigjaldafrumvarpsins og óttast samdrátt, skerta þjónustu við íbúa og atvinnuleysi. Ingibjörg ræðir við Morgunblaðið ásamt fleiri þingmönnum sem viðra skoðanir sínar.

Í sama streng tekur Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, sem kveðst vera á móti frumvarpinu. Þórarinn telur rétt að hækka gjöldin í áföngum eigi yfirhöfuð að hækka þau og kveður hann nýjar tölur og upplýsingar ekki hafa breytt afstöðu sinni.

Annað hljóð er í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna. Þeir stjórnarþingmenn sem Morgunblaðið ræddi við styðja frumvarpið. Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, segir störf geta glatast ef ákvarðanir fyrirtækjanna verði þess valdandi. Frumvarpið kalli aftur á móti ekki á það.

Ása Berglind Hjálmarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, segir aukna afslætti og hækkuð frítekjumörk koma verulega til móts við þær áhyggjur sem hafi verið uppi í sveitarfélögunum. Hefur hún ekki áhyggjur af því að störf í sjávarútvegi geti glatast eða flust úr landi. Fleiri þingmenn ræddu við Morgunblaðið um frumvarpið. Erfiðlega gekk að ná í stjórnarþingmenn landsbyggðarinnar.

„Hækkun veiðigjalda hefur ekki bein áhrif á laun sjómanna og mun því ekki leiða til hækkunar útsvarstekna til sveitarfélaga þar sem laun sjómanna eru ákveðin í kjarasamningum,“ sagði Arnar Þór Sævarsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, í samtali við Morgunblaðið.

Voru ummæli Ingu Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra á Alþingi þá til umræðu, en ráðherra sagði þá hærri veiðigjöld skila sér í hærri útsvarstekjum til sveitarfélaga. „Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hafa þó bent á að hækkun veiðigjalda geti haft áhrif á rekstrarforsendur sjávarútvegs sem geti leitt til lægri tekna sveitarfélaga, hvort sem er í formi útsvars eða annarra gjalda,“ sagði Arnar Þór.