Landsréttur hefur dæmt Ásgeir Þór Önnuson í sex ára fangelsi fyrir skotárás sem átti sér stað á heimili í Hafnarfirði á aðfangadagskvöld árið 2023. Hlaut hann í héraði fimm ára dóm sem nú hefur verið þyngdur.
Ásgeiri Þór var gefin að sök tilraun til manndráps, húsbrot, hættubrot og vopnalagabrot með því að hafa umrætt kvöld ásamt Breka Þór Frímannssyni ruðst grímuklæddur og í heimildarleysi inn á heimili í Hafnarfirði, þar sem fjórir brotaþolar voru staddir, og skotið án viðvörunar samtals sex skotum úr skammbyssu í átt að tveimur þeirra. Breka Þór var gefin að sök hlutdeild í brotum Ásgeirs Þórs með því að hafa liðsinnt honum við undirbúning og framkvæmd brotsins.
Þá var Hilmi Gauta Bjarnasyni einnig gefin að sök hlutdeild í broti Ásgeirs Þórs með því að hafa ekið honum og Breka Þór umrætt kvöld gegn peningagreiðslu.
Fram kemur í dómi að hending ein hafi valdið því að skotin lentu ekki í fólkinu sem þá var inni í barnaherbergi og einnig að Ásgeiri Þór hafi hlotið að vera ljóst að það væri lífshættulegt að skjóta sex skotum úr skammbyssu í átt að fólki af stuttu færi.
Niðurstaða héraðsdóms um refsingu Breka Þórs og Hilmis Gauta var staðfest og Breka Þór gert að sæta fangelsi í 30 mánuði og Hilmi Gauta gert að sæta skilorðsbundnu fangelsi í eitt ár. Þá var skammbyssan gerð upptæk.