Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Umboðsmaður Alþingis hefur sent ítarlega fyrirspurn til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Fer hann fram á að nefndin lýsi afstöðu sinni til kvörtunar íbúa við Klapparstíg og Skúlagötu vegna meðferðar nefndarinnar á mótmælum þeirra er strætóstöð var komið fyrir við Skúlagötu í óþökk þeirra. Nefndin er krafin svara í ellefu liðum og af orðalagi bréfsins má ráða að umboðsmaður hafi ýmsar athugasemdir við stjórnsýsluna í þessu ferli.
Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu kærði húsfélagið Völundur breytingu Reykjavíkurborgar á deiliskipulagi við Skúlagötu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var þess krafist að framkvæmdaleyfi yrði fellt úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar. Nefndin hafnaði þeirri beiðni. Íbúarnir héldu því fram að deiliskipulagstillagan sem samþykkt var væri ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag og því óheimil.
Strætóstöðin var flutt á Skúlagötu meðan á endurbótum við Hlemm stendur. Íbúar segjast hafa orðið fyrir verulegum óþægindum vegna strætisvagnaumferðar þar. » 2