Baksvið
Malín Eyfjörð Ægisdóttir
malin@mbl.is
Veitingastaðurinn og kaffihúsið LYST í Lystigarðinum á Akureyri hefur á skömmum tíma fest sig í sessi sem einn vinsælasti staður í bænum. Að baki honum stendur Reynir Gretarsson, matreiðslumaður og fyrrverandi framleiðslustjóri hjá súkkulaðigerðinni OMNOM. Hann segir gott starfsfólk og sterka sýn vera lykilinn að velgengni.
„Ég get verið mjög þrjóskur á hvernig ýmislegt er,“ segir Reynir. „Fyrsta sumarið var ég beðinn um að vera með marengstertur og perutertur og sítrónutertur, vera þetta týpíska kaffihús. En ég vildi gera þetta eins og ég vildi hafa þetta og það er meiri matur, náttúruvín og kaffi frá íslenskum kaffibrennara. Þetta snýst bara um að halda tryggð við eitthvað, vanda sig, gera þetta vel og ráða gott fólk.“
Reynir segist alltaf hafa átt draum um að reka eitthvað sjálfur. Honum finnst mikilvægt að veitingastaðir versli við íslenska framleiðendur. „Ég er mjög harður á því að við séum bara með íslenska bjóra. Allt sterkt eins og gin og svona reynum við að vera með íslenskt og íslenskt gos að mestu. Það hefur verið ákveðin sýn.“
LYST var opnað í Lystigarðinum árið 2022 eftir að auglýst var eftir veitingaaðilum til að halda úti rekstri í húsi sem Akureyrarbær lét byggja og þykir eitt það fallegasta á landinu.
Íslendingar í mat
„Við erum fyrsti staðurinn í þessu húsi sem hefur haft opið á veturna af einhverju viti. Þá eru þetta langmest Íslendingar. Við erum þekktust fyrir hádegismatinn okkar, fisk og grænmeti, það er íslenskur markaður í því. Á sumrin náttúrulega breytist Akureyri og verður ferðamannabær. Garðurinn er mikið aðdráttarafl fyrir þá og Akureyrarbær stendur sig vel í að halda honum fallegum. En það er meira kaffi fyrir ferðamennina og meiri matur fyrir Íslendinga.“
Miðbærinn og bjórhátíð
Nýverið var opnað Kaffi LYST í Pennanum Eymundsson í miðbæ Akureyrar. Reynir segist ánægður með opnunina, staðurinn sé enn í mótun. „Þetta er meira kaffihús en LYST í Lystigarðinum. En ég er mjög þrjóskur með ýmislegt og þetta verður ekki eins og kaffihúsið sem var þarna. Við ætlum að gera okkar eigið og gera það vel.“
Reynir hefur verið duglegur að halda ýmsa viðburði á LYST. Stærstur þeirra er án efa Sumar- og bjórhátíðin. „Þar koma fimmtán handverksbrugghús saman í Lystigarðinum með smakk á bjór fyrir alla sem eru með armbönd. Armböndin veita afslætti úti um allan bæ yfir alla helgina. Á laugardagskvöldinu, eftir að bruggararnir eru búnir að gefa smakk, verða útitónleikar þar sem Rakel, Una Torfa, Bríet og Jói P og Króli munu spila.
Reyni langar að stækka hátíðina enn meira. „Ég vil horfa á Iceland Airwaves og Food and Fun, af hverju getur Akureyri ekki átt eina svona hátíð af svona stærðargráðu? Þetta eru svona draumórarnir.“
Flesta viðburði heldur Reynir þó á veturna. Hann segist vera með flottasta hljóðkerfi í bænum. „Við höfum örugglega haldið tæplega tvö hundruð viðburði á þessum tæpum fjórum árum. Fólk að utan, Akureyringar sem eru að koma sér á framfæri og stærri nöfn. Ég hreyki mér alltaf af því að Una Torfa hélt fyrstu tónleika sína sem hún seldi inn á hjá mér. Ég veit ekki einu sinni hvort hún muni það. Hún sagði þetta bara á tónleikunum og ég man það svo vel.“