Öflugur Tónlistarmaðurinn Helgar er með mörg lög í takinu og stefnir á útgáfu plötu í vetur.
Öflugur Tónlistarmaðurinn Helgar er með mörg lög í takinu og stefnir á útgáfu plötu í vetur.
Tæknifrumkvöðullinn Helgi Pjetur, fyrrverandi knattspyrnumaður og tónlistarútgefandi, gaf fyrir skömmu út sitt fyrsta lag, „Second-Hand Lives“, undir listamannsnafninu Helgar. Hann fylgdi því síðan eftir með ábreiðu af laginu…

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Tæknifrumkvöðullinn Helgi Pjetur, fyrrverandi knattspyrnumaður og tónlistarútgefandi, gaf fyrir skömmu út sitt fyrsta lag, „Second-Hand Lives“, undir listamannsnafninu Helgar. Hann fylgdi því síðan eftir með ábreiðu af laginu „Talandi höfuð“, sem hljómsveitin Spilafífl flutti í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík, og tónlistarmyndbandi, sem einnig byggist á upprunalegu myndbandi fyrrnefndrar sveitar með laginu. „Ég hef samið mörg lög að undanförnu, stefnan er að halda áfram að gefa út eigin lög og síðan plötu í vetur,“ segir tónlistarmaðurinn.

„Ég hef verið mikið inni í tónlist og unnið við hana,“ heldur Helgar áfram. Hann kom meðal annars að útgáfu streymisveitunnar tonlist.is fyrir um aldarfjórðungi og var það þriðja tónlistarstreymisveitan í Evrópu. Hann stofnaði síðan útgáfufyrirtækið Cod Music og gaf út tónlist annarra, m.a. fyrstu plötu Lay Low árið 2006. Að undanförnu segist hann hafa kynnt sér hljóðblöndunarkerfi og látið á þau reyna með fyrrnefndum árangri. „Lengi hefur blundað í mér að gefa út lög eftir mig sjálfan og allt í einu sprakk allt út.“

Barði með í ráðum

Helgar leitaði ráða hjá Barða Jóhannssyni vini sínum og kom ekki að tómum kofunum. „Hann bað mig að senda sér sýnishorn og bauðst í kjölfarið til að framleiða og hljóðblanda eitt lag. Ég sendi honum nokkur lög og hann valdi síðan lagið „Second-Hand Lives“ til þess að vinna og fullklára með mér.“

Barði leikur undir á bassa og gítara í laginu, Kristinn Snær Agnarsson spilar á trommur og Helgar á gítar og píanó auk þess sem hann sér um sönginn og hljóðgervla. „Það er aldrei að vita nema Barði vinni með mér fleiri lög, sem verða á plötunni, en hann hefur líka hvatt mig til þess að læra af öðrum tónlistarmönnum. Það gæti hentað vel, því lögin sem ég hef samið eru svo ólík.“

Helgar hefur samið um 30 lög og texta á ensku og gerir ráð fyrir að um 12 þeirra verði á plötunni. „Mig langar til þess að gefa út vínilplötu enda sjálfur mikill vínilmaður og safnari,“ upplýsir hann, en lögin verða aðgengileg á streymisveitum.

Ábreiðan „Talandi höfuð“ kemur úr allt annarri átt og verður væntanlega ekki á plötunni. „Ég hef verið að leika mér að því að gera svona ábreiður, ólíklegar ábreiður, eins og ég kalla þær,“ segir Helgar. Félagi sinn hafi skorað á sig að gera pönklagið að sínu og úr hafi orðið þessi popp/rokk-útgáfa af 43 ára gömlu lagi eftir Sævar Sverrisson og Örn Hjálmarsson við texta eftir Sævar.

Helgi spilaði lengst af fótbolta með Leikni í Reykjavík. Hann rekur ásamt félögum sínum auglýsingatæknifyrirtækið Púls Media, sem sérhæfir sig í snjöllum og sjálfvirkum lausnum. „Ég er með upptökustúdíó heima og vinnan og tónlistin eiga góða samleið.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson