Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Fjölmenni hélt upp á 249 ára afmæli Bandaríkjanna í boði bandaríska sendiráðsins á Hótel Nordica á fimmtudagskvöld. Þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna er sem kunnugt er 4. júlí en hefð er fyrir því að haldið sé upp á daginn á Íslandi vikuna áður.
Erin Sawyer, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, bauð gesti velkomna eftir að Arnór Dan, söngvari Agent Fresco, hafði sungið þjóðsöngva Bandaríkjanna og Íslands.
Eftir að hafa ávarpað gesti, þar með talinn Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseta Íslands, bauð hún þá velkomna á íslensku.
„Kæru gestir og vinir. Ég býð ykkur öll velkomin,“ sagði Sawyer á íslensku.
Talar meiri íslensku næst
„Á næsta ári mun ég flytja lengri hluta ræðunnar á íslensku en í dag. Þakka ykkur öllum kærlega fyrir að halda með okkur upp á 249 ára afmæli Bandaríkjanna. Venju samkvæmt hér á Íslandi hittumst við í fyrra fallinu, áður en sumarfríin byrja í júlí, til að halda upp á daginn saman,“ sagði Sawyer, en nú er þýtt úr ensku. Þetta árið hefði verið ákveðið að tileinka hátíðina þjóðgörðum Bandaríkjanna og Íslands, en þeir hefðu mótað sjálfsmynd þjóðanna, verið þeim innblástur og minnt fólk á tilvist einhvers æðra.
„Við getum fundið jarðtengingu í náttúrunni og ástin á hinni miklu náttúru tengir okkur saman. Náttúran veitir okkur sjónarhorn sem minnir okkur á víðáttu, margbreytileika og seiglu jarðarinnar. Ísland er kvikt land. Það er stöðugt á hreyfingu og breytist undir fótum okkar. Bandaríkin, jarðfræðilega forn en samt ung þjóð, halda áfram ófullkomnu ferðalagi sínu í gegnum hina miklu tilraun sem lýðræðið er.
Skömmu eftir borgarastríðið
Af hinni tilkomumiklu fegurð vesturhluta Bandaríkjanna spratt hugmyndin um þjóðgarða; svæði svo einstök að þau ættu að vera varðveitt fyrir alla um ókomna tíð. Fyrsti þjóðgarður okkar, Yellowstone, var stofnaður árið 1872, skömmu eftir bandaríska borgarastríðið,“ sagði Sawyer jafnframt.
Hún rifjaði svo meðal annars upp stofnun þjóðgarða á Íslandi, en henni á hægri hönd var varpað upp myndum af bandarískum þjóðgörðum en íslensku þjóðgörðunum þremur henni á vinstri hönd. Gat hún svo þess að Ísland og Bandaríkin hefðu undirritað viljayfirlýsingu um aukið samstarf við verndun þjóðgarða og verndaðra svæða.