Skjaldborg Erlendur Sveinsson svaraði spurningum áhorfenda á sviði.
Skjaldborg Erlendur Sveinsson svaraði spurningum áhorfenda á sviði. — Ljósmynd/Patrik Ontkovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Musteri minninganna var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg fyrr í mánuðinum. Myndin fellur undir flokk stuttheimildarmynda og er tíu mínútur að lengd. Hún er fyrsta heimildarmyndin sem ekki er í fullri lengd sem fær styrk frá Kvikmyndasjóði

Flóki Larsen

floki@mbl.is

Musteri minninganna var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Skjaldborg fyrr í mánuðinum. Myndin fellur undir flokk stuttheimildarmynda og er tíu mínútur að lengd.

Hún er fyrsta heimildarmyndin sem ekki er í fullri lengd sem fær styrk frá Kvikmyndasjóði. Erlendur Sveinsson, leikstjóri myndarinnar, greindi frá þessu í samtali við blaðamann á hátíðinni á Patreksfirði. Hann segist vera stoltur af þeim áfanga og segir söguna þurfa að kalla á lengdina en ekki öfugt, því stutt mynd geti hreyft jafn mikið við áhorfandanum og löng mynd.

Myndin fjallar um fyrirtækið Myndbandavinnsluna og eiganda þess, Jón Inga Friðriksson, sem hefur rekið fyrirtækið síðan 1988. Myndbandavinnslan er í Nóatúni og sérhæfir sig í því að færa gamlar upptökur yfir á stafrænt form.

Spurður um tildrög myndarinnar segir Erlendur að hann hafi sjálfur verið í erindagjörðum með gamla myndavél af gerðinni „High 8“: „Ég gekk þarna inn í Nóatún og hugsaði með mér, vá, er þetta enn til?“ Hann segir fyrirtækið vera mikilvæga stoð innan kvikmyndageirans. Jón Ingi býður upp á margþætta þjónustu en í símtali við blaðamann sagðist hann hafa tæki til að sinna öllu sem tengist hljóði og mynd. Hann hefur byggt upp ákveðna sérþekkingu í gegnum árin en hann hafði þegar starfað í geiranum í um sjö ár þegar hann stofnaði fyrirtækið árið 1988 ásamt tveimur öðrum. Hann hefur því yfir 40 ára starfsreynslu á sínu sviði.

Skrásetningarþráhyggja

Sem kvikmyndagerðarmaður segist Erlendur hafa ákveðna þráhyggju fyrir því að skrásetja tímann með því að taka hann upp. Myndina segir hann hafa orðið til út frá vangaveltum um þá þráhyggju og þá iðju fólks að taka upp hreyfimyndir yfirleitt.

Erlendur segir myndina spretta út frá þeirri pælingu hans að myndböndin virki raunar eins og tímavél. Myndbandavinnsluna segir hann að líta megi á sem nokkurs konar tímahylki, þar sem minningar fólks sem teknar hafa verið upp og orðið að myndböndum hljóti nýtt líf í varðveisluferlinu.

Erlendur segir það ekki komið á hreint hvar myndin verði aðgengileg í nánustu framtíð. Hann geti þó upplýst lesendur um næstu verkefni.

Litla-Hraun verður tekið fyrir í næstu heimildarmynd. Erlendur segist þó vera að hræra í ýmsum pottum. Það sé nauðsynlegt fyrir kvikmyndagerðarfólk á Íslandi að hafa nokkur verkefni á teikniborðinu í einu. Erlendur segir að einnig sé von á kvikmynd í fullri lengd sem muni heita Sjö hæðir. Þar að auki sé hann að fást við auglýsingaverkefni og tónlistarmyndbönd.

Höf.: Flóki Larsen