Magdalena Anna Torfadóttir
magdalena@mbl.is
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðbólga hækkaði meira en spár greiningaraðila gerðu ráð fyrir.
Í greiningu Íslandsbanka kemur fram að óvenjumikil hækkun hafi verið á verði á flugfargjöldum til útlanda.
„Flugfargjöld til útlanda hækka alla jafna nokkuð í júní og mest í júlí þegar ferðalög til og frá landinu ná hápunkti. Flugfargjöldin hækkuðu um 12,7% í júní þetta árið,“ segir í greiningunni.
Greinendur Íslandsbanka telja að verðbólgutakturinn muni hjaðna örlítið frá núverandi gildum í sumar og mælast 3,8% í júlí og 4% í ágúst. Verðbólgutakturinn muni svo aukast með haustinu þegar einskiptisliðir frá síðasta hausti, m.a. vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða, detta út úr mælingunni.
Greiningaraðilar telja að í ljósi nýjustu verðbólgubólgutalna séu frekari stýrivaxtalækkanir ólíklegar.
„Verðbólgutölur dagsins eru enn einn hagvísirinn sem vekur trúlega litla kátínu hjá peningastefnunefnd Seðlabankans. Frá vaxtaákvörðuninni í maí hafa nýjar mælingar sýnt þrálátt háar verðbólguvæntingar líkt og við fjölluðum nýlega um,“ segir í greiningunni.
Jafnframt segir í greiningunni að þjóðhagsreikningar fyrir fyrsta fjórðung ársins hafi sýnt töluverðan þrótt í innlendri eftirspurn.
„Nýleg gögn á borð við kortaveltu, nýskráningar bifreiða og utanlandsferðir benda til áframhaldandi neyslugleði landans á vordögum. Auk þess er enn nokkur seigla í vinnumarkaði og eftirspurn á íbúðamarkaði virðist lífseig þrátt fyrir allhátt vaxtastig,“ segir í greiningunni.