Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi í gær að einstakir alríkisdómarar hefðu ekki vald til að hindra framgang forsetatilskipana.
Sex dómarar af níu stóðu að niðurstöðunni en þrír voru henni andvígir. Komst meirihluti dómsins að þeirri niðurstöðu að með því að setja lögbann á tilskipanir, sem næðu til alls landsins, færu alríkisdómarar að líkindum út fyrir það valdsvið sem Bandaríkjaþing hefur veitt þeim.
Í dómsorði meirihlutans segir að alríkisdómstólar hafi ekki almennt eftirlit með framkvæmdavaldinu. Þeir úrskurði í málum og deilum í samræmi við það vald sem þingið hefur veitt þeim. Komist dómstóll að þeirri niðurstöðu að framkvæmdavaldið hafi ekki farið að lögum sé svarið ekki að dómstólarnir fari einnig út fyrir valdsvið sitt.
Donald Trump forseti Bandaríkjanna fagnaði niðurstöðunni og á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær sagði hann að á undanförnum mánuðum hefðu „róttækir vinstrisinnaðir dómarar“ reynt að grafa undan forsetavaldi hans. Trump bætti við að lögbönn, sem næðu til alls landsins, væru alvarleg ógn við lýðræðið.
Bandaríska ríkisstjórnin hafði beðið hæstarétt að takmarka áhrif lögbanns héraðsdómstóla á tilskipanir við þá aðila, sem leggja fram lögbannskröfuna og héraðið þar sem dómarinn situr.
Fæðingarréttur undir
Málið snerist í raun um tilskipun, sem Trump gaf út sama dag og hann tók við embætti í janúar, um að börn ólöglegra innflytjenda, sem fæddust í Bandaríkjunum, fengju ekki sjálfkrafa ríkisborgararétt.
Dómarar í þremur ríkjum, Maryland, Massachusetts og Washington, komust að þeirri niðurstöðu að tilskipunin bryti gegn bandarísku stjórnarskránni sem kveður á um að allir þeir sem fæðast í Bandaríkjunum eða hafi þar ríkisborgararétt séu bandarískir þegnar.
Hæstiréttur fjallaði þó ekki með beinum hætti um þessa tilskipun í dómnum. Búist er við að það mál komi til kasta dómsins síðar á þessu ári.