Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
Enn á ný er komin upp mygla í leikskólanum Ægisborg í Reykjavík, en úttekt verkfræðistofunnar COWI sýnir fram á rakaskemmdir í húsnæðinu sem og að þar þrífist mygla á nokkrum stöðum. Mælt er með ýmsum aðgerðum til úrbóta, að þétta útveggi og taka einangrun af þeim, endurmúra og einangra og þétta sprungur. Rífa þarf upp gólfefni í hluta skólans, þétta glugga eða skipta um, svo nokkuð sé nefnt. Þá kemur fram gagnrýni vegna þess að illa sé staðið að þrifum í skólanum.
Grafalvarleg staða
Úttektin á skólanum var gerð sl. vor, en einungis eru liðin fjögur ár frá því að skólanum var lokað og ráðist í gagngerar endurbætur á húsnæðinu vegna rakaskemmda og myglu.
„Þetta er grafalvarleg staða. Það eru aðeins örfá ár frá því að skólastarf í Ægisborg var í uppnámi og var þá miklu til kostað til að lagfæra rakaskemmdir og uppræta myglu í skólahúsnæðinu. Það kemur mér því í opna skjöldu að sama vandamál skuli vera komið upp aðeins örfáum árum síðar,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.
Á fundi í borgarráði sl. fimmtudag voru samþykktar aukafjárheimildir upp á 50 milljónir til að ráðast í viðgerðir á húsnæðinu, en óljóst er hvort það fé muni duga til.
„Það alvarlegasta í þessu máli er að skólastarf kemst nú í uppnám öðru sinni á fáum árum í Ægisborg. Við höfum ekki fengið skýr svör um hvað það muni fela í sér, en ég geri ráð fyrir að börnin 75 sem þar stunda nám verði færð í annað húsnæði um tíma. Því miður er þetta ekki eina dæmið um myglu- og rakavandamál í skólahúsnæði Reykjavíkurborgar. Við höfum séð hvernig margra ára uppsöfnuð viðhaldsskuld hefur komið niður á leik- og grunnskólastarfi í borginni af miklum þunga síðustu árin,“ segir Hildur.
Andvaraleysi borgaryfirvalda
Spurð um hvað skýri þessi ítrekuðu myglu- og rakavandamál segir Hildur að það sé andvaraleysi borgaryfirvalda. Fara þurfi ofan í saumana á því hvernig þetta hafi getað gerst á Ægisborg, í ljósi þess að farið var í miklar framkvæmdir af sömu sökum fyrir fáeinum árum. Líklega séu enn börn í skólanum sem þar voru þegar mygla kom upp árið 2021 og nú séu þau og fjölskyldur þeirra að verða fyrir hinu sama öðru sinni.
„Þetta er mjög alvarlegt og er ekki á það bætandi miðað við stöðu leikskólamála í borginni. Það er ekki nóg með að hér séu lengstu biðlistarnir og flestir lokunardagar vegna mönnunarvanda, við erum líka að sjá börn hrökklast úr sínum leikskóla vegna viðhaldsvanda húsnæðis. Þetta er klár stjórnunarvandi, það er alveg ljóst, og taka þarf til gagngerrar skoðunar hvernig haldið er á fasteignamálum borgarinnar, ekki síst hvað viðkemur leik- og grunnskólastarfi, þar sem okkar verðmætustu persónur eru á degi hverjum,“ segir Hildur og bendir á að margir verði fyrir heilsutjóni af því að læra eða starfa í umhverfi þar sem myglu og rakaskemmdir sé að finna.