Alþingi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar friðmæltist við stjórnarandstöðuna síðdegis í gær.
Alþingi Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar friðmæltist við stjórnarandstöðuna síðdegis í gær. — Morgunblaðið/Eyþór
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, kvaddi sér óvænt hljóðs á Alþingi í miðri umræðu um veiðigjöld síðdegis í gær, sagði að sér þætti miður hvernig þung orð hefðu fallið á báða bóga í pólitískri umræðu liðinna daga

Stjórnmál

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, kvaddi sér óvænt hljóðs á Alþingi í miðri umræðu um veiðigjöld síðdegis í gær, sagði að sér þætti miður hvernig þung orð hefðu fallið á báða bóga í pólitískri umræðu liðinna daga.

Hún kvaðst hafa átt mörg gæfurík samtöl þá um daginn, ekki síst við fólk í stjórnarandstöðunni, og hún fyndi ríkan vilja „til þess að ná samningum, ná lendingu sem er landi, þjóð og ekki síst Alþingi til sóma“, sagði hún.

„Þannig að ég tali skýrt: Við viljum gjarnan halda þessu samtali áfram af einlægni og heiðarleika og af einlægum vilja til þess að gera betur og gera það saman.“

Hnútukast spillti samningum

Þessi orð komu ekki upp úr engu og voru ekki innantóm, en þau kunna að reynast forsenda þinglokasamninga.

Varla þarf að orðlengja hve stirt samkomulagið milli stjórnar og stjórnarandstöðu hefur verið á þingi, enda fjöldi veigamikilla og umdeildra mála þar til meðferðar.

Þingflokksformenn hafa að vísu hist til þess að þreifa fyrir sér um samkomulag undanfarnar vikur, en lengst af með sáralitlum árangri.

Kergjan hefur aukist frekar en hitt síðustu daga, en segja má að í hvert sinn, sem eitthvað hefur virst miða áfram á fundum þingflokksformanna, hafi nýjar yfirlýsingar spillt fyrir.

Þar má helst nefna ásakanir Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra um að málflutningur stjórnarandstæðinga væri í „falsfréttastíl“, sem varla voru nein mismæli í ljósi þess að Þórður Snær Júlíusson, framkvæmdastjóri þingflokks Samfylkingarinnar, lét sömu sjónarmið í ljós í grein.

Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, hefur einnig verið duglegur við að fara upp í pontu til þess að espa andstæðingana, en Inga Sæland lét sitt ekki eftir liggja með yfirlýsingum um áhrif veiðigjaldahækkunar á sveitarfélög og kjör sjómanna.

Beinskeytt orð Hönnu Katrínar Friðriksson atvinnuvegaráðherra í viðtölum, síðast nú í gær, hafa einnig sett samninga ítrekað í uppnám, og ekki bættu úr skák dálkar DV, sem fylgir Viðreisn að málum, þar sem jafnvel fjölskyldum stjórnarandstöðuþingmanna er ekki hlíft.

Frumkvæði Þorgerðar

Kristrún átti raunar tækifæri til þess að brjóta upp þráteflið, en samherjar hennar sögðu að hún myndi draga orð sín um „falsfréttastílinn“ til baka í fyrirspurnatíma á fimmtudag. En þegar á hólminn var komið gerði hún það ekki og allt hljóp aftur í hnút.

Það glataða tækifæri virðist ástæðan fyrir því að Þorgerður Katrín greip til sinna ráða, hélt til þings og ræddi í þaula við stjórnarandstöðuna áður en hún fór í ræðustól og friðmæltist við stjórnarandstöðuna með þessum hætti.

Þar hefur pólitísk reynsla hennar og nef örugglega haft mikið að segja. Og kannski ekki seinna vænna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa samningar þingflokksformanna til þessa ekki snert á erfiðu málunum, en það munar um hitt líka, og alls óvíst að samtal þeirra hefði haldið áfram, hefði Þorgerður Katrín ekki skorist í leikinn.

Höf.: Andrés Magnússon