Sviðsljós
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
Rútustæði sem hefur verið við Hallgrímskirkju síðustu ár verður flutt niður að BSÍ. Tillaga þess efnis var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur í vikunni en nú fer í hönd verkhönnun og gerð útboðsgagna.
Í bókun meirihluta ráðsins segir að íbúar og rekstraraðilar á svæðinu hafi lengi vakið athygli á þeirri miklu umferð, hættu, mengun og ónæði sem hljótist af svokölluðu safnstæði fyrir hópbíla við Hallgrímskirkju. Stæðið gegnir því hlutverki að þar koma rútur með farþega á hótel í nágrenninu og í skoðunarferðir í Hallgrímskirkju auk þess sem fólk er sótt í dagsferðir þar og því skilað til baka.
Hætta fyrir skólabörn
Í kynningu sem lögð var fram í umhverfis- og skipulagsráði er rifjað upp að fram til ársins 2017 hafi verið ófremdarástand í miðborginni. Rútur óku meira og minna um allar götur þar með tilheyrandi ónæði og óánægju íbúa. Árið 2017 var akstursbann skilgreint og sérstök rútustæði útbúin, 15 talsins. Síðan þá hafa verið gerðar breytingar í ljósi reynslu. Frá því í byrjun árs 2023 hefur verið til skoðunar að flytja stæðið frá Hallgrímskirkju, enda kunna fáir við hávaða og mengun frá rútunum við eina fallegustu byggingu landsins. Þá kom í ljós að mesta umferðin um stæðið var á sama tíma og börn voru á leið í skóla og leikskóla. Að jafnaði komu sjö rútur á 15 mínútum inn á stæðið á þessum tíma.
Opnað í sumar eða haust
Tveir kostir voru skoðaðir; Snorrabraut og Gamla-Hringbraut við BSÍ, og varð síðari kosturinn fyrir valinu. „Stæðið við BSÍ náði til fleiri gistirýma innan 400 m radíus heldur en aðrir valkostir sem safnstæði. Safnstæði á þessum tiltekna stað hefði það líka í för með sér að vegalengdirnar frá þeim gististöðum sem féllu utan 400 m radíus í næsta safnstæði yrði styttri með stæði við Gömlu Hringbraut ofan BSÍ,“ segir í greinargerð.
Nýja rútustæðið verður á bílastæði við BSÍ, næst bensínstöð N1. „Tillagan gerir ráð fyrir að nýta svæði sem undanfarin ár hefur verið nýtt sem bílastæði fyrir starfsfólk Landsspítalans í tengslum við framkvæmdir við nýjan Landspítala. Ekki er lengur þörf fyrir þau bílastæði þar sem verið er að taka nýtt bílahús í notkun við spítalann. Gert er ráð fyrir að þetta fyrirkomulag sé tímabundið þar til farið verður í framkvæmdir á BSÍ reit eða tekin verður í notkun miðlæg umferðarmiðstöð hópbifreiða,“ segir enn fremur í greinargerð.
Í minnisblaði sem sömuleiðis var lagt fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs kemur fram að stefnt sé að því að nýja safnstæðið verði opnað annaðhvort í sumar eða haust. Forhönnun þess sé lokið og verkhönnun að fara af stað.
Kirkjugestir velkomnir
Rútustæðinu við Hallgrímskirkju verður lokað þegar nýja stæðið verður klárt en áfram verður þó heimilt að aka að Hallgrímskirkju með farþega sem ætla að skoða kirkjuna. Þá hafa svokallaðir HopOn-HopOff-vagnar áfram heimild til að aka um Skólavörðuholtið og hleypa farþegum inn og út við Hallgrímskirkju.