Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason
Hið fyrirhugaða kílómetragjaldakerfi er flókið og vekur áhyggjur um aukna umsýslu og óskilvirkni.

Vilhjálmur Árnason

Það er margt sem sameinar okkur Íslendinga. Ekki síst sameiginleg áhersla okkar á öflugt samfélag sem setur ekki óþarfa byrðar á fólk sem hefur minna á milli handanna. Því vekur það sérstaka athygli að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hyggst nú keyra í gegn breytingar sem bitna hvað verst á þeim sem minna mega sín. Nei, ég er ekki að tala um veiðigjaldafrumvarpið, heldur um kílómetragjaldið sem ríkisstjórnin vill nú ólm leggja á landsmenn.

Vinstristjórnir eru stundum svo uppteknar af því að búa til kerfi í kringum hlutina að þær gleyma að spyrja sig hvort breytingarnar séu yfir höfuð nauðsynlegar. Kerfið í kringum kílómetragjaldið, sem ríkisstjórnin leggur nú til, er einmitt skýrt dæmi. Enn eitt báknið sem kallar á nýtt eftirlit, nýjar álögur, aukinn kostnað og óþarfa flækjur fyrir alla sem reka ökutæki.

Óvissa um lægra eldsneytisverð

Breytingin felst í því að eldsneytisgjöld, fyrir utan kolefnisgjald, verði felld út úr verði á eldsneytislítranum og í stað þess verði rukkað kílómetragjald. Í núverandi kerfi eru eldsneytisgjöld innheimt við dælu, samhliða eldsneytiskaupum.

Hins vegar má efast um að afnám núverandi gjalda skili sér til neytandans að fullu í lægra eldsneytisverði. Reynslan bendir til þess að olíuverð hækki jafnt og þétt, stundum umfram markaðsvirði og óháð einstökum breytingum. Lækkun gjalda tryggir því ekki endilega varanlegan ávinning fyrir almenning til lengri tíma, en nýtt gjaldakerfi í kringum kílómetragjaldið tryggir hins vegar aukinn kostnað og flóknari framkvæmd.

Kolefnisgjaldið sem nýtt eldsneytisgjald?

Þá er fyrir hendi raunverulegur freistnivandi hjá stjórnvöldum að hækka kolefnisgjöld árlega og þau verði í reynd hið nýja eldsneytisgjald, en til stendur að innheimta kolefnisgjaldið við dælu fyrir hvern seldan lítra, ekki í gegnum kílómetragjaldið. Það gæti leitt til þess að eigendur bensín- og dísilbíla greiði tvöfalt – bæði kílómetragjald og kolefnisgjald.

Það þarf engan snilling til að sjá hvernig þetta endar. Það er bara spurning um tíma hvenær vinstrimenn átta sig á að hér er kominn nýr og þægilegur skattstofn sem auðvelt er að mjólka. Og það undir pólitískt réttlætanlegum formerkjum: „Þetta er jú umhverfisvænt.“

En hverjir bera raunverulega kostnaðinn? Það er ekki fólkið sem ekur um á nýrri Teslu, heldur þeir sem þurfa að telja hverja krónu. Þetta bitnar þannig verst á lágtekjufólki.

Í dag er það þannig að öll ökutæki greiða almennt gjald fyrir notkun samgöngukerfisins. Lengi vel greiddu rafmagnsbílar ekki fyrir notkun, sem leiddi til þess að hugmyndir um að taka upp kílómetragjald fóru í undirbúning. Með tilkomu rafmagnsbíla og sparneytnari ökutækja varð tekjufall ríkissjóðs af ökutækjum töluvert. Við þeirri þróun hefur nú þegar verið brugðist með upptöku kílómetragjalds á rafmagns- og tengiltvinnbíla og hækkun kolefnisgjalda á jarðefnaeldsneyti. Því er óskiljanlegt að ríkisstjórnin hafi yfir höfuð lagt þetta mál fram, enda vandinn ekki til staðar lengur. Eðlilegra væri að telja málið afgreitt en ríkisstjórnin virðist ekki vera á sama máli.

Einfalt og skilvirkt kerfi þegar í gildi

Í dag tryggir tvíþætt kerfi gjaldtöku fyrir notkun samgöngukerfisins: Kílómetragjald fyrir 56.000 rafmagns- og tengiltvinnbíla og eldsneytisgjöld fyrir yfir 300.000 önnur ökutæki. Ríkisstjórnin réttlætir nú frumvarpið með vísan til jöfnuðar milli orkugjafa og tekjuöryggis ríkissjóðs, en þeim markmiðum hefur þegar verið náð með fyrrnefndum kerfum. Því vekur furðu sú fyrirætlan að skipta út einföldu og virku kerfi fyrir flóknara kerfi, sem hvorki á að skila auknum tekjum né leysa raunveruleg vandamál. Þetta minnir helst á að pikka upp lás þegar lykillinn liggur á borðinu.

Núverandi kerfi, þar sem eldsneytisgjöld eru innheimt samhliða eldsneytiskaupum við dælu, hefur ótvíræða kosti sem mikilvægt er að halda til haga. Kerfið er einfalt, gagnsætt og skilvirkt. Gjaldtakan er skýr; notandinn sér strax hversu mikið hann greiðir, og hvorki þarf skráningu né sérstakan búnað í ökutæki. Kerfið lágmarkar þannig umsýslukostnað, bæði fyrir einstaklinga og stjórnvöld. Gjaldtakan er í beinu samhengi við notkun, hver lítri eldsneytis endurspeglar raunverulegan akstur og innheimtan fer fram án viðbótarflækju.

Hið fyrirhugaða kílómetragjaldakerfi er flókið og vekur áhyggjur um aukna umsýslu og óskilvirkni. Reynslan af gjaldtöku á rafmagns- og tengiltvinnbílum sýnir að skráning kílómetra krefst sérstakra tækja og hugbúnaðar, sem eykur kostnað og eftirlitsþörf. Þetta eykur hættu á villum, rangri innheimtu og íþyngjandi leiðréttingum fyrir bæði notendur og stjórnsýsluna. Ríkið þarf að sjá um skráningu, eftirlit og eftiráinnheimtu, sem kallar á tímafreka vinnu og úrlausn ágreiningsmála. Fyrir almenning og fyrirtæki þýðir þetta ófyrirsjáanlegan kostnað og aukið flækjustig með tilheyrandi hættu á mistökum, misræmi og jafnvel undanskotum.

Áhrif á almenna notendur

Óumdeilt er að fyrirhugað kílómetragjald muni valda óþægindum fyrir almenna bifreiðaeigendur; regluleg skráning, eftirágjaldtaka og tæknilega flókið kerfi. Áhrifin verða mismunandi eftir tæknilæsi, fjárhag og aðgengi að kerfinu.

Kerfið mun hafa íþyngjandi áhrif á atvinnulífið. Fyrirtæki þurfa að halda utan um flóknari gögn og ráða til sín aukin mannafla vegna utanumhalds og uppsetningar tölvukerfa, auk þess að standa straum af kostnaði við skráningu og innheimtu. Í dag fer þessi gjaldtaka einfaldlega fram við dæluna. Umsagnir atvinnulífsins endurspegla þessa gagnrýni skýrt. En þetta kemur svo sem ekkert á óvart, enda orðið regla fremur en undantekning að atvinnulífið þurfi að verja sig gegn íhlutun þessarar ríkisstjórnar, sem skortir bæði ígrundun og samráð.

Dregur úr samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar

Þessar auknu kvaðir munu hækka kostnað bílaleigubíla um 12–17%, sem getur dregið úr komu ferðamanna og haft áhrif á ferðavenjur. Hærri kostnaður þýðir hærra verð og skert samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar. Við þurfum að styrkja ferðaþjónustuna, ekki veikja hana, enda ein mikilvægasta atvinnugrein Íslands. Bílaleigur gegna lykilhlutverki, sérstaklega á svæðum þar sem rútur sinna ekki ferðum, og hafa verið ómetanlegar fyrir ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Umsagnir um frumvarpið benda á að neikvæð áhrif geti numið milljörðum króna.

Eins hafa rekstraraðilar þungra ökutækja lýst verulegum áhyggjum af áhrifum frumvarpsins. Landflutningar eru ein af undirstöðum verðmætasköpunar um allt land. Vörubifreiðastjórar flytja bæði nauðsynjavörur til daglegs lífs og útflutningsverðmæti sem eru forsenda velferðarkerfisins. Flestar útflutningsgreinar starfa í alþjóðlegri samkeppni, og skattlagning á vöruflutninga gerir ekkert annað en að veikja stöðu þeirra á erlendum mörkuðum.

Ríkisstjórnin staðráðin í að flækja kerfið

Fyrirliggjandi frumvarp kallar á nýtt og dýrt eftirlitskerfi fyrir gjald sem þegar er innheimt með einföldu, gagnsæju og skilvirku móti. Þrátt fyrir fjölmargar ábendingar um óhagkvæmni og íþyngjandi áhrif fyrir almenning og atvinnulíf virðist ríkisstjórnin staðráðin í að flækja það sem virkar. Nú reynir á pólitíska forgangsröðun: Veljum við einfaldleika og skynsemi eða nýtt bákn? Sjálfstæðisflokkurinn á að hafna þessari leið og standa vörð um hagkvæmni, jafnræði og ábyrg opinber útgjöld. Það er einfaldlega óþarfi að flækja hluti sem virka.

Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Vilhjálmur Árnason