Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Rúm er fyrir alls 150 börn í leikskólanum Sumarhúsum í Helgafellslandi í Mosfellsbæ, sem opnaður var nú í vikunni. Opnun skólans er, segir í tilkynningu, mikilvægur áfangi í bættri þjónustu við börn og fjölskyldur í sveitarfélaginu. Með þessu gefst til dæmis svigrúm til að gefa foreldrum barna allt frá 12 mánaða aldri kost á skólavist.
Leikskólastjóri Sumarhúsa er Berglind Grétarsdóttir. Starfsmenn verða um 45 talsins í 40 stöðugildum og vel hefur gengið að ráða í helstu lykilstöður í leikskólanum. Starf Sumarhúsa byggir á Heilsustefnunni, þar sem áhersla er lögð á næringu, hreyfingu og sköpun í leik.
„Við hlökkum mikið til að taka á móti þeim börnum sem hefja skólagöngu sína í Sumarhúsum að loknu sumarleyfi. Jafnframt verður spennandi að sjá starfið þróast og dafna og leikskólinn verða einn af máttarstólpunum í skólasamfélagi Mosfellsbæjar,“ segir Berglind skólastjóri.
„Þessi dagur markar mikilvæg tímamót fyrir Mosfellsbæ. Við erum einstaklega ánægð með samvinnu við verktakafyrirtækið Alefli, sem skilar af sér glæsilegu verki,“ segir Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri.