Þóra Sigurðardóttir fæddist 21. febrúar 1936 á Eyvindarhólum undir Austur-Eyjafjöllum í Rangárvallasýslu. Hún lést 10. júní 2025 á Landspítalanum í Fossvogi.

Foreldrar hennar voru Dýrfinna Jónsdóttir frá Seljavöllum, f. 1892, d. 1986, og Sigurður Jónsson frá Berjanesi, f. 1888, d. 1971, bændur á Eyvindarhólum.

Dýrfinna og Sigurður eignuðust 11 börn og var Þóra yngst þeirra. Hin eru Ragnhildur, f. 1916, d. 2008. Sigríður, f. 1918, d. 1966, Ása, f. 1921, d. 2010, Margrét f. 1922, d. 2012, Sigurjón Guðni, f. 1924, d. 1994, Guðrún, f. 1926, d. 2005, Jón, f. 1929, d. 2013, Gunnar, d. 1931, d. 2011, Guðmundur Þórarinn, f. 1932, d. 1934. og Vilborg, f. 1934. Þau eru öll látin nema Vilborg. Einnig ólst Sigríður Dýrfinna, f. 1947, dóttir Ragnhildar, upp hjá Sigurði og Dýrfinnu að Eyvindarhólum.

Eftirlifandi maki Þóru er Reynir Hlíðar Sæmundsson, f. 1941. Foreldrar hans voru Sæmundur Einar Þórarinsson, f. 1920, d. 1988, og Helga Steinunn Lúthersdóttir, f. 1919, d. 1996, maki hennar var Hákon Kristgeirsson, f. 1923, d. 1994.

Þóra átti tvær dætur, Jódísi Ólafsdóttur f. 1957, maki Jóhannes Ellert Eiríksson, og Sigríði Reynisdóttur læknanema, f. 1976, d. 2002. Þóra átti tvö barnabörn, Þóri, f. 1977, og Fjólu, f. 1981, og eitt langömmubarn, Ellu, f. 2021.

Þóra ólst upp á Eyvindarhólum og sinnti þar almennum sveitastörfum, jafnt innan dyra sem utan, um leið og aldur leyfði, eins og tíðkaðist hjá þessari kynslóð.

Þóra gekk í barnaskóla í Skarðshlíð. Hún stundaði nám hjá séra Sigurði Einarssyni og Hönnu Karlsdóttur í Holti, einn vetur. Síðan fór hún í húsmæðraskóla að Laugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu.

Ung að árum fór Þóra að heima til að vinna á Selfossi. Síðar fór hún til Reykjavíkur og starfaði fyrst í Vinnufatagerð Íslands eins og eldri systur hennar en síðan í Ísafoldarprentsmiðju. Þegar hún flutti í Kópavog vann hún í Sundlaug Kópavogs til starfsloka.

Þóra og Reynir bjuggu lengst af í vesturbæ Kópavogs með dóttur sinni Sigríði en síðustu árin í austurbænum. Þau ferðuðust mikið saman um landið ásamt Sigríði dóttur sinni. Einnig ferðuðust þau mikið erlendis og sigldu meðal annars til Bandaríkjanna og Evrópu. Þóra og Reynir byggðu sér sumarbústað á Flötum rétt við Árnes. Þar áttu þau mörg handtök og margar ánægjustundir og dvöldu þar oft á sumrin.

Útför Þóru fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 30. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 11.

Vorið 1996 var ég við nám í Menntaskólanum í Kópavogi og kynntist þar stúlku sem var tveimur árum eldri en ég, henni Siggu. Við vorum bæði fulltrúar MK í Gettu betur. Við felldum hugi saman, urðum kærustupar og eðli málsins samkvæmt kynntist ég fljótlega foreldrum hennar, Þóru og Reyni. Ég komst fljótt að því að þarna var einstaklega gott og hæglátt fólk á ferðinni. Ég var nýorðinn 18 ára og með háleita drauma og fyrirheit og vildi að sjálfsögðu uppfylla þá drauma með dóttur þeirra. Stundum skynjaði ég að Þóru fannst ákefðin vera fullmikil hjá mér, en það var nú eitt af einkennum hennar að ana ekkert út í hlutina. Hún sýndi mér samt alltaf stuðning á einn eða annan hátt.

Árin liðu og Sigga komst inn í læknisfræði í HÍ og ég kláraði MK og svo flugnámið mitt. Við Sigga vorum oft í bústaðnum með þeim Þóru og Reyni í Árnesi. Ég var líka nánast fluttur til þeirra á Kópavogsbrautina og gekk sambúðin vel. Þóra var á þessum árum við það að ljúka starfsævi sinni í sundlaug Kópavogs en svo skemmtilega vildi til að þær mæðgur náðu að vinna saman þar eitt sumar. Einnig er mér minnisstæð ferð til Kaupmannahafnar í lok maí 2001 þar sem haldið var upp á 60 ára afmæli Reynis og áttum við þar skemmtilega daga saman.

Þann 2. maí 2002 urðu mikil þáttaskil í lífi okkar allra. Þá um morguninn varð Sigga bráðkvödd 25 ára gömul og allt breyttist. Það var Þóru og Reyni alveg gríðarlegt áfall að missa Siggu. Ég flutti aftur til foreldra minna og reyndi að takast á við breyttar aðstæður. Mér þótti alltaf svo vænt um Þóru og Reyni og hélt ég sambandi við þau.

Lífið hélt áfram og nokkrum mánuðum síðar kynntist ég Ólafíu minni, sem ég ákvað að segja þeim strax frá. Þau samglöddust mér en vildu samt bíða aðeins með að hitta hana. Það var svo um jólin þar á eftir sem þau óskuðu eftir að hitta Ólafíu. Það var upphafið að nýju og einstöku sambandi okkar allra. Þau tóku henni opnum örmum og bar aldrei skugga á. Það var örugglega ekkert auðvelt fyrir Þóru að opna heimili sitt og hjarta fyrir þessum breyttu aðstæðum og bar henni í raun engin skylda til þess. En það lýsir Þóru svo vel hvernig hún samgladdist mér og tók Ólafíu alltaf af hlýhug og kærleika það sem eftir lifði. Sambandið var sérstakt og algjörlega einstakt. Þóra hélt í raun áfram að vera tengdamóðir mín og talaði ég um hana sem slíka.

Það eru forréttindi að hafa átt Þóru og Reyni að í nærri 30 ár. Þau samglöddust okkur á stóru stundum lífsins og eftir að við eignuðumst svo börnin okkar þrjú jókst bara velvildin og væntumþykjan. Börnin okkar áttu í raun aukasett af ömmu og afa og var það okkur öllum dýrmætt. Alltaf vorum við boðin í mat á jólum hjá þeim og svo ótal ferðir í bústaðinn til þeirra með börnin. Þóra prjónaði af sinni alkunnu snilld fullt af fötum og fallegu böngsunum sínum fyrir börnin okkar. Ég fæ Þóru og Reyni seint þakkað fyrir þá góðvild og vináttu sem þau hafa sýnt mér og minni fjölskyldu í gegnum árin og mun ég alltaf minnast Þóru með mikilli hlýju í hjarta.

Guð blessi minningu Þóru Sigurðardóttur.

Björn Ásbjörnsson.

Ég hitti Þóru fyrst fyrir nærri 23 árum þegar ég var tiltölulega nýbúin að kynnast manninum mínum, honum Bjössa. Hann hafði nefnilega verið tilvonandi tengdasonur Þóru og Reynis en nokkrum mánuðum áður höfðu þau fengið það ósanngjarna hlutskipti í lífinu að missa dóttur sína, Sigríði, skyndilega aðeins 25 ára gamla. Bjössi hélt sambandi við þau hjónin enda hafði hann til nokkurra ára búið hjá þeim með kærustunni sinni en þau voru þá bæði í námi.

Fyrstu jólin okkar, sem voru líka fyrstu jólin eftir að Sigga lést, ætlaði Bjössi í stutta heimsókn til Þóru og Reynis með jólapakka og ég beið úti í bíl. Hann stökk inn en ekki leið á löngu þar til ég var sótt. Þau vildu hitta mig! Ég man að ég var óörugg og lítil í mér og í raun fylltist ég samviskubiti yfir aðstæðunum. Þetta var svo ósanngjarnt allt saman. En inn fór ég og áhyggjurnar hurfu strax. Þóra og Reynir tóku vel á móti mér og var þetta upphafið að dýrmætri vináttu okkar allra.

Ef eitthvað einkenndi Þóru var það æðruleysi og hógværð og fyrir því fann ég frá fyrstu stundu. Hún var ákveðin og þrjósk en á yfirvegaðan hátt. Upp frá þessu heimsóttum við Þóru og Reyni reglulega. Þegar kom að brúðkaupi okkar samglöddust þau okkur innilega og voru líka spennt þegar börnin okkar þrjú fæddust eitt af öðru. Í Reyni og Þóru eignuðust þau aukasett af ömmu og afa og fengu þau peysur, sokka og bangsa sem Þóra prjónaði. Það varð líka hefð að hittast alltaf um jólin og borða saman og Toblerone-ísinn hennar Þóru og loftkökurnar urðu ómissandi hátíðargóðgæti.

Heimsóknirnar austur í bústað urðu líka margar og þá var búið að útbúa eitthvað gott með kaffinu þegar við komum og svo var kveikt á grilli um kvöldið og misjafnt hvort hamborgarar eða lambalæri varð fyrir valinu. Það var alltaf passað að það væri til kókómjólk fyrir krakkana!

Síðustu árin fór heilsu Þóru að hraka. Hún tók því, eins og öðru, af æðruleysi og var tilbúin fyrir það sem koma skyldi. Trúin á að Sigga hennar myndi taka á móti henni að lokum var bjargföst. Börnin stækkuðu og við Bjössi vorum oftar ein á ferð í heimsóknunum og áttum við þá margar góðar stundir þar sem var spjallað yfir kaffibolla. Það var stutt í glettnina hjá Þóru, sem oftar en ekki beindist að Reyni þegar hún var að leiðbeina honum við húsmóðurstörfin sem hún átti orðið erfitt með að sinna.

Ég er þakklát fyrir einstaka vináttu Þóru og get svo sannarlega tekið margt í fari hennar mér til fyrirmyndar. Hvíl í friði elsku Þóra – takk fyrir allt.

Ólafía Sólveig Einarsdóttir.

Í dag er til moldar borin Þóra Sigurðardóttir frá Eyvindarhólum, Vestur-Skaftafellssýslu. Ég kynntist Þóru fyrst fyrir nokkrum árum þegar dóttursonur hennar Þórir kom inn í fjölskylduna og batt trúss sitt við Helgu dóttur mína og börnin hennar þau Ragnheiði Kristínu og Jóhann Orra. Þótt kynni okkar Hans-Uwe við þau Þóru og Reyni hæfust seint og við hittumst aðeins nokkrum sinnum hjá þeim Helgu og Þóri voru þau kynni góð og hlý. Það var fallegt að fylgjast með hversu vel Þórir annaðist afa sinn og ömmu, sérstaklega þegar aldurinn færðist yfir og heilsan brást og hversu einhuga þau Helga voru í því. Þórir var þeim algjör stoð og stytta og það mátti glöggt greina hversu hlýtt var þeirra á milli. Þóra tók barnabörnunum mínum opnum örmum sem langamma og fyrir það vil ég þakka af heilum hug. Ég votta Reyni, Þóri og öðrum í fjölskyldunni mína einlægu samúð. Blessuð sé minning Þóru Sigurðardóttur.

Ragnheiður Helga Þórarinsdóttir.