Kristófer Oliversson fæddist 30. júní 1955 á Akranesi og varð strax heillaður af lífinu í kringum sjóinn.
„Við lékum okkur í fjörunni og við bryggjurnar. Þar veiddum við strákarnir ufsa, kola og einstaka þorsk. Nóga beitu var að fá í frystihúsunum og hvalkjötið sem var verkað í Heimaskaga var besta beitan. Það var gaman að vera strákur á Skaganum upp úr miðri síðustu öld.“
Það var ekki bara verið að veiða sér til gamans því þátttaka í atvinnulífinu hófst snemma. „Við stóðum á línubala á hvolfi til að ná upp á borð og slitum humar í frystihúsi Heimaskaga strax við 7-8 ára aldur. Ég vann mig upp og komst í niðursuðuna hjá Ingimundi í HB & Co. 12 ára og komst svo á sjóinn 14 ára og var fyrsta sumarið á Sigurborginni á síld í Norðursjónum en svo næstu sumur á línu ýmist við Grænland eða fyrir norðan land á grálúðumiðum.“
Eftir landspróf fór Kristófer í menntadeild sem Sigurður Hjartarson skólastjóri kom á fót í samvinnu við Menntaskólann í Hamrahlíð og hann útskrifaðist frá MH 1975, þá giftur maður. Hann fór í Háskóla Íslands og síðar í Háskólann í Lundi í Svíþjóð.
Kristófer segir að reynslan af sjómennskunni hafi komið sér vel því á menntaskóla- og háskólaárunum hafi verið hægt að taka túr og túr á netabátum frá Þorlákshöfn, Grindavík eða Skaganum þegar lækkaði í buddunni. „Svo tóku við átta vertíðir á plani í Hvalnum, fyrst hjá Lofti Bjarna og síðar hjá Stjána Lofts. Eftir sumarið komu hvalmenn í bæinn með árslaun verkamanns og ef vel var haldið á dugði sjóðurinn fram undir næstu vertíð og aldrei þurfti að taka námslán. Það er mikill skaði að friðunarbísnissinn sé að ganga frá þessari sjálfbæru nýtingu á auðlindum hafsins.“
Á háskólaárunum og eftir þau vann hann í Framkvæmdastofnun ríkisins. „Þar var Sverrir Hermannsson kommisar. Síðar varð Byggðastofnun til og á þeim tíma voru umsvif stofnunarinnar mikil í atvinnulífi um allt land, einkum í sjávarútvegi. Þetta var lærdómsríkur tími og starfinu fylgdi seta í stjórnum fyrirtækja og mikil ferðalög og þátttaka í verkefnum um allt land.“
Eftir nokkur ár hjá Byggðastofnun bauðst Kristófer starf sem framkvæmdastjóri hjá Haferninum á Akranesi, en fyrirtækið gerði út tvo togara og rak stóra fiskvinnslu. Fáum árum síðar fluttist kvóti fyrirtækisins yfir til HB & Co. og síðan þaðan yfir í HB Granda og síðan hefur útgerð og fiskvinnsla að miklu leyti lagst af á Skaganum.
Við þessi tímamót flutti fjölskyldan aftur í Grafarvoginn og árið 1994 keyptu hjónin gistihús við Flókagötu. „Pabbi var kominn á eftirlaun og tók að sér næturvörslu og eiginkonan hætti á skurðstofum Landspítalans og sá um daglegan rekstur.“
Árið 1998 opnuðu þau svo fyrsta hótelið við Laugaveginn og hafa frá þeim tíma bæði starfað við hótelreksturinn. Svo opnuðu þau hótelin hvert af öðru og nú eru þau orðin níu talsins í miðborginni, staðsett frá Hlemmi vestur á Granda og eru rekin undir vörumerkinu Center Hotels.
Árið 2013 keyptu þau sér 52 feta seglskip, sem þau skírðu Hug í höfuðið á fiskibáti afa Kristófers sem hann gerði út í áratugi frá Sandgerði. „Haustið 2014 lögðum við af stað og við tókum þátt í siglingakeppni „Rally around the world“, en rúmlega 20 skútur tóku þátt og jarðarkúlunni var skipt upp í 18 leggi og keppt. Á leiðinni kynntust áhafnir bátanna vel og við hittumst á tveggja ára fresti og það vill svo til að við hjónin munum eyða sjötugsafmælisdeginum mínum í góðum hópi skútusiglara í Willamsburg í Bandaríkjunum.
Hugur er nú gerð út í Eyjahafinu og við siglum henni þar milli grísku eyjanna, stolt undir íslensku flaggi. Þar um borð er skrifstofa Center Hotels rekin þegar við siglum.“
Síðustu ár hefur Kristófer tekið að sér formennsku í FHG – Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu. „Innan okkar vébanda er megnið af íslenskum hótelrekstri. Okkar hlutverk hefur einkum beinst að því að jafna leikinn gagnvart erlendum fyrirtækjum sem skipuleggja heimagistingu og svo gistingu í fljótandi hótelum og veitingahúsum skráðum á aflandseyjum. Það er keppst við að veita slíkri starfsemi skattalegt forskot umfram okkur sem erum að byggja upp heilsársgistingu og greiðum af því skatta og skyldur á Íslandi.“
Hann segir að formennskan sé skemmtilegt hobbí meðfram siglingunum. „Enn finnast hafnir í Eyjahafinu sem heimagistingin og skemmtiferðaskipin eru ekki búin að hertaka, en því miður hafa þau lagt undir sig margar fallegustu eyjarnar.“
Fjölskylda
Eiginkona Kristófers er Svanfríður Jónsdóttir, BSc í svæfingar- og gjörgæsluhjúkrun og hótelstýra, f. 28.5. 1955. Foreldrar hennar voru Jón Einarsson, f. 6.1. 1917, d. 6.8. 2010, og Anna Halldórsdóttir, f. 18.8. 1913, d. 24.11. 1978.
Börn Kristófers og Svanfríðar eru 1) Maron Kristófersson, f. 23.10. 1975, kvæntur Unni Gyðu Magnúsdóttur, f. 10.11. 1976, og þau eiga börnin Thelmu Kristínu, f. 2001, Elísu Björk, f. 2007, og Magnús Andra, f. 2009. Áður átti Maron Kristófer Má, f. 1993, með Kristínu Mjöll Guðjónsdóttur, f. 1973. 2) Sara Kristófersdóttir McGuinness, f. 11.1. 1979, gift David McGuinness, f. 9.6. 1975. 3) Anna Ólöf Kristófersdóttir, f. 3.9. 1984, gift Baldvin Erni Ólasyni, f. 4.9. 1987, og börn þeirra eru Tristan Máni, f. 2019, og Gabríel Logi, f. 2021.
Systkini Kristófers eru Steindór Kristinn, f. 5.3. 1953, og Helga Ólöf, f. 18.3. 1954.
Foreldrar Kristófers eru Oliver Gísli Kristófersson, f. 26.9. 1928, d. 25.11. 2015, aðalbókari á Akranesi og síðar endurskoðandi og næturvörður í Reykjavík, og Ingibjörg Sara Jónsdóttir, f. 27.10. 1931, d. 30.9. 1986, verslunarmaður á Akranesi.