30 ára Alma Rós er Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún gekk í skóla í Eyjum og lauk þar við framhaldsskólann. „Ég æfði sund og fótbolta sem stelpa og svo var ég reyndar lengst í fimleikum.“ Eftir stúdentsprófið fór hún aðeins til Reykjavíkur í grunnnám í bókhaldi, en fór svo aftur til Eyja.
„Ég fór að vinna hjá Herjólfi, og er sölu- og verkefnastjóri hjá þeim og hef verið núna í átta ár.“
Helstu áhugamál Ölmu Rósar eru útivist og hreyfing. „Svo eru það auðvitað gæðastundir með fjölskyldu og vinum, og svo hef ég líka gaman af því að teikna og mála.“
Fjölskylda Eiginmaður Ölmu Rósar er Birkir Hlynsson hárskeri, en hann rekur Rakarastofu Viktors og Birkis og er líka borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur. Þau eiga dæturnar Aríu Lind, f. 2021, og Unni Evu, f. 2022.