Rektorar allra háskólanna á Íslandi lýsa miklum áhyggjum af því að sótt sé að grundvallarstoðum háskólastarfs víða um heim, þ.e. akademísku frelsi og sjálfstæði stofnana fyrir framgang þekkingar, eflingu lýðræðis og þróun samfélaga. Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu sem þeir samþykktu á fundi í síðustu viku á vettvangi Samstarfsnefndar háskólastigsins.
„Akademískt frelsi er hornsteinn háskóla- og rannsóknastarfs. Það felur í sér rétt fræðimanna til að leita sannleikans og þekkingar án óeðlilegra afskipta, til að kenna og ræða hugmyndir frjálst og til að miðla niðurstöðum rannsókna án ótta við ritskoðun eða refsiaðgerðir. Þetta frelsi er lykilatriði til að hlúa að gagnrýninni hugsun, nýsköpun og öflugum skoðanaskiptum sem eru undirstaða lýðræðissamfélaga,“ segir m.a. í yfirlýsingunni sameiginlegu.
Þar segir jafnframt að stofnanalegt sjálfstæði tryggi að fræðileg markmið séu sett á grundvelli vísindalegra verðleika fremur en pólitískra eða viðskiptalegra hagsmuna.
„Þetta sjálfstæði er nauðsynlegt til að viðhalda heilindum og trúverðugleika háskólastofnana og gerir þeim kleift að leggja fram sinn veigamikla skerf til samfélagslegra og tæknilegra framfara og takast á við hnattrænar áskoranir á borð við loftslagsbreytingar og lýðheilsu.“
Rektorarnir hvetja háskóla og hagsmunaaðila til að standa vörð um akademískt frelsi, tryggja sjálfstæði stofnana og efla alþjóðlegt samstarf.
„Við skuldbindum okkur til að standa vörð um þessi grundvallaratriði innan okkar eigin stofnana og beita okkur fyrir því að þau séu virt á heimsvísu. Með því að verja akademískt frelsi og sjálfstæði stofnana styrkjum við undirstöður lýðræðis og leggjum okkar af mörkum til sjálfbærrar þróunar samfélaga okkar.“