Herdís Kristín Valdimarsdóttir fæddist í Reykjavík 30. janúar 1947. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli 13. júní 2025.
Foreldar hennar voru Valdimar Ragnar Jónsson, f. 28.2. 1922, d. 9.1. 2008, og Áslaug Þorkelsdóttir, f. 13.9. 1923, d. 13.12. 1986.
Systkini Herdísar eru Jón, f. 1944, Bryndís Margrét, f. 1952, Valdís, f. 1961, og Ásdís, f. 1965.
Eiginmaður Herdísar var Jón Grettisson, f. 30.7. 1946, d. 29.4. 2024. Börn þeirra eru: 1) Hjördís Linda, f. 9.10. 1965, d. 16.9. 2011. Börn hennar eru a) Diljá Rún, f. 1990, hún á þrjú börn, b) Bjarki Snær, f. 1995, og hann á tvö börn. 2) Valdimar, f. 1.8. 1967. Börn hans eru a) Jón Baldur, f. 1998, b) Guðrún Karen, f. 2001, c) Arnar Bjartur, f. 2010. 3) Áslaug Filippa, f. 6.9. 1972, eiginmaður hennar er Dagbjartur Þórðarson, f. 17.1. 1964. Börn þeirra eru a) Gréta María, f. 1990, hún á tvö börn, b) Kristveig Lilja, f. 1992, c) Filippa Herdís, f. 2003, d) Guðbjörn Jón, f. 2005, e) Valgerður Kristín, f. 2006.
Heddý ólst upp í foreldrahúsum í Reykjavík. Hún starfaði sem unglingur og ung kona í Laugarásbíói, í matvöruverslun hjá Silla og Valda og á Fjölritunarstofunni. Hinn 12. nóvember 1965 giftist hún ástinni sinni, honum Nonna, og áttu þau saman 59 farsæl ár í hjónabandi. Heddý og Nonni hófu búskap í bílskúr á Langholtsveginum, fluttu svo þaðan á Vatnsenda, Gunnarsbraut og á Hraðastaði en byggðu svo framtíðarheimilið í Arnartanga 38 í Mosfellssveit og fluttu þar inn 30. nóvember 1978.
Heddý starfaði lengst af hjá Á. Óskarssyni, tölvudeild Álafoss og á Reykjalundi. Þá venti hún sínu kvæði í kross og lærði bókhald og tölvuvinnslu, eftir það starfaði hún hjá Tengi. Heddý tók virkan þátt í starfi Soroptimistafélagsins í Mosfellsbæ um árabil. Heddý og Nonni ferðuðust víða og bjuggu meðal annars um tíma í Ísrael vegna starfa Nonna. Áhugamál hennar voru fjölskyldan, hannyrðir, stjörnuspeki og svo allar góðu samverustundirnar við skógrækt í Skarfanesi með fjölskyldunni.
Útför fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ í dag, 30. júní 2025, og hefst athöfnin klukkan 13.
Elsku hjartans mamma mín, mikið er ég þakklát fyrir þig og alla þína ást og gæði. Samband okkar alla tíð svo náið og gott, gat alltaf sagt þér alla hluti og leitað til þín með hvað sem var. Studdir mig í einu og öllu.
Minningar svo ótalmargar góðar. Vorum ansi oft einar heima í gamladaga, pabbi að vinna á fjöllum og Hjördís og Valdi í sveit, sérstaklega eftirminnilegt sumarið '79, þú spurðir mig alla daga „hvað eigum við að hafa í matinn“ og ég vildi kinnar og gellur eða fiskibollur í dós, og þetta tvennt borðuðum við allt sumarið. Minnist þín líka endalaust prjónandi og saumandi af mikilli vandvirkni og þegar ég fór að brasa við að sauma gastu hrist hausinn og hlegið að óþolinmæði minni þar sem ég nennti nú ekki að fara eftir einhverju sniði, klippti bara út í bláinn og saumaði, mesta furða hvað kom út úr því.
Á unglingsárum mínum varstu ansi ströng að mér fannst (líklega þörf á því) og vinkonur mínar muna þig allar fyrir hvað þú varst orðheppin og fyndin en að sama skapi voru þær líka skíthræddar við þig. Þegar ég var 16 ára fékk ég að búa ein í íbúðinni hennar Hjördísar systur í heilan mánuð meðan hún var erlendis, þá byrjuðu daglegu símtölin okkar sem voru oft ansi löng og lögðu grunninn að okkar miklu og innilegu vináttu.
Það er ekki öllum gefið að eiga bestu vinkonu í mömmu sinni. Heimilið okkar friðsælt og hamingjuríkt og þið pabbi alltaf samstiga og innileg. Mörg skemmtileg ferðalög og veiðiferðir en best af öllu Skarfanes þar sem fjölskyldan öll á óteljandi minningar af samveru síðastliðin 39 ár við skemmtun og skógrækt. Við munum öll halda góðum verkum þar áfram. Árin ykkar í Ísrael kom ég fimm sinnum í heimsókn og það eru svo dásamlegar minningar að eiga af ferðalögunum með ykkur þar.
Þolinmæði og jákvæðni áttir þú endalausa og gast verið svo drepfyndin í tilsvörum að hálfa væri nóg, alls konar óviðeigandi gat dottið út úr þér, ekki prenthæft, svo úr urðu mikil hlátrasköll eða fólki svelgdist á.
Síðastliðin ár fór heilsunni að hraka og eftir að elsku pabbi dó sl. vor varð líf þitt mjög erfitt en alltaf varstu jákvæð, þolinmóð og æðrulaus sama hvað á dundi. Sagðist alltaf hafa það „bara bæró“ og að ég skyldi ekki hafa áhyggjur af þér. Mér þykir ótrúlega sárt hvað þú þurftir að þola miklar þjáningar síðustu mánuði en trúi að nú séuð þið pabbi og Hjördís systir sameinuð, frísk, fjörug og létt á fæti og gleðjist eins og ykkur er lagið. Kveðjuna okkar alla daga síðastliðið árið, „hæ elsku mamma“ … „hæ elsku Áslaug“ … og alla kossana og fingurkossana geymi ég sem gull í hjarta mínu að eilífu. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt.
Ég elska þig af öllu hjarta elsku besta mamma mín. Guð geymi þig.
Sparibarnið þitt,
Áslaug Filippa.
Hvar skal byrja? Leiðir okkar Heddýjar lágu fyrst saman vorið 1998 í Arnartanganum, þegar Áslaug kynnti mig til leiks í fjölskyldunni. Það voru svo sem engin húrrahróp í upphafi en þegar fram liðu stundir tókst með okkur vinátta sem entist meðan bæði lifðu.
Það er ansi margs að minnast frá öllum þessum árum. Þegar þið Nonni heimsóttuð okkur Áslaugu á Þórshöfn og við grandskoðuðum Langanesið og Melrakkasléttuna. Þú varst viðstödd þegar Filippa kom í heiminn, ógleymanleg stund, allar plöntunarferðirnar, jólaboðin, áramótapartíin og barnaafmælin, alltaf varst þú manna hressust og hélst utan um hópinn þinn. Það stendur mér líka ljóslifandi fyrir sjónum þegar við vorum að breyta baðherberginu og setja baðkar. Þá varst þú að vinna hjá Tengi, komst með blöndunartækin og allt sem þurfti fyrir sturtuna og áður en ég gat komið upp orði sagðir þú: „Ekki orð, þetta er útrætt mál!“ Þér líkt. Ekki má heldur gleyma þeim sið að allir komu saman í skúrnum í Arnartanganum og hamflettu rjúpurnar fyrir jólin. Í upphafi eldaðir þú saltfisk í mannskapinn sem vék svo fyrir pítsum þegar barnabörnin stækkuðu. Eins er ferðin sem við fórum saman á Bíldudal að heimsækja Hjördísi og Óla ógleymanleg.
Elsku Heddý, það var tómlegt hjá okkur á jólunum í fyrra þegar þú gast ekki komið sökum veikindanna sem hrjáðu þig og Nonni farinn, enn tómlegra verður það í ár. Ég kveð þig nú og þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og okkur fjölskylduna í Tröllagili og bið að heilsa Nonna, Hjördísi og hundunum.
Það er margs að minnast,
mikið hvað ég sakna þín.
Eins og þú ekki margar finnast,
elsku tengdamóðir mín.
(DÞ)
Dagbjartur.