Norður
♠ 8652
♥ K652
♦ G63
♣ 102
Vestur
♠ ÁG1043
♥ 103
♦ –
♣ ÁK9543
Austur
♠ 97
♥ ÁG987
♦ K9854
♣ 8
Suður
♠ KD
♥ D4
♦ ÁD1072
♣ DG76
Norður spilar 3♣ redobluð.
Það kann sjaldan góðri lukku að stýra þegar báðar hliðar enda í sama trompsamningi. Það sannaðist í spilinu að ofan sem kom fyrir á opna Evrópumótinu í Poznań. Spilið var spilað á samtals 24 borðum í öldungaflokki og blönduðum flokki í sveitakeppni og lokasamningarnir voru fjölbreyttir, allt frá 2G ódobluðum í suður til 5♠ doblaðra í vestur. Við eitt borð spilaði vestur 3♣ og fékk níu slagi.
Víða opnaði austur á 2♥, sýndi veik spil með hjarta og láglit og suður sagði 2G til að sýna jafnskipta 15-18 punkta þótt hjartafyrirstaðan væri rýr. Þá byrjaði vestur að dobla og oftast enduðu sagnir í 3♦ dobluðum í suður, 500-800 niður. En við eitt borðið reyndi suður að leggja á flótta með redobli. Við því sagði norður 3♣ og flóttaredoblaði þegar vestur doblaði á ný. En suður var ekki með á nótunum og sagði pass, sagnhafi fékk fjóra slagi og AV 2800.