Fimm írskir lögreglumenn tóku skýrslur af alls 46 manns á Íslandi sem gætu haft upplýsingar um hvarf Jóns Þrastar Jónssonar, sem hvarf í Dyflinni í febrúar 2019. Hann fór til Írlands til að taka þátt í pókermóti og er sagður hafa tapað hálfri milljón króna skömmu áður en hann hvarf.
Irish Independent greinir frá því að skýrslur hafi verið teknar af fólki sem þekkti Jón Þröst, en þeirra á meðal eru dæmdir glæpamenn, fjölskylda og vinir hans.
„Við munum nú fara heim og meta gögnin sem við öfluðum,“ er haft eftir Alan Brady, yfirlögregluþjóninum sem fer fyrir rannsókninni. Sagði Brady jafnframt að vinnan á Íslandi hefði verið gagnleg.
„Við teljum að hvað sem kom fyrir Jón hafi gerst á Írlandi. En við höldum líka að svör við því hvað kom fyrir hann liggi innan íslenska samfélagsins.“
Brady sagðist ekki hafa útilokað neitt í máli Jóns Þrastar enn. Enn væri til skoðunar hvort Jón hefði verið myrtur, framið sjálfsvíg eða lent í slysi af einhverju tagi.
Uppi hafa verið ýmsir orðrómar, meðal annars um leigumorðingja sem hafi farið mannavillt. „Fólk hefur bent okkur á að honum gæti hafa verið gert mein af einstaklingum sem tengjast glæpastarfsemi. Við höfum kannað alla möguleika og það eru margar kenningar.“
Þá sagði Brady að lögreglan hefði rætt við fjölskyldu Jóns Þrastar, sem hefur gagnrýnt störf lögreglunnar. „Við funduðum með nokkrum úr fjölskyldunni og tókum skýrslur af nokkrum. Við byggðum brýr. Þau hafa gengið í gegnum gríðarlega sorg síðastliðin sex ár. Engin fjölskylda ætti að þurfa að ganga í gegnum slíkt. Við erum hér til að reyna að fá svör fyrir þau.“